Reykjavík er ekki gömul borg en hún á samt sína draugastaði og í bókinni Reimleikar í Reykjavík er talað um helstu staðina og sögurnar sem þeim tilheyra.
Mér finnst þetta afskaplega skemmtileg bók og skemmtilega upp sett. Þarna eru í bland hörku draugasögur og hálfgerðar munnmælasögur sem hafa reikað milli manna í fjöldamörg ár. Í bland við draugasögurnar sjálfar er ýmis fróðleikur um Reykjavík og ábúendur hennar í gegnum tíðina.
En bókin er ekki bara skemmtileg heldur er hún líka virkilega fræðandi, mér finnst gaman að lesa svona um borgina mína. Ekki þurrar staðreyndir um eitthvað sem snertir mig ekki neitt heldur sögur af fólki og þeirra lífi og störfum.
Með hverri sögu eru nokkrar ljósmyndir sem tengjast beint eða óbeint og gefa bókinni meira líf. Það er óneitanlegra skemmtilegra að lesa svona bók og geta skoðað myndirnar í leiðinni.
Mér finnst augljóst eftir lesturinn að Steinari Braga þykir vænt um borgina Reykjavík og það er ekki hægt annað en vera sammála því áliti eftir þennan lestur.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.