Rauð sem blóð heitir nýútkomin unglingabók eftir finnska höfundinn Salla Simukka. Aðalsöguhetjan er Mjallhvít sem minnir að sumu leiti á Lisbeth Salander úr þríleiknum Karlar sem hata konur.
Mjallhvít er unglingaútgáfan af henni og grínast sjálf með að vera sambland af Lisbeth og Hercule Poirot.
Sagan hefst þannig að Mjallhvít rekst á blóðuga peninga sem hengdir hafa verið til þerris í framköllunarherberginu í skólanum. Hún er einfari en við peningafundinn sogast hún inn í inn í atburðarás sem hún hefur enga stjórn á. Hún þarf að aðstoða flottasta gengið í skólanum og saman berjast þau við allskonar óþjóðalýð. Þetta er hröð bók og skemmtileg og mátulega löng.
Þetta er fyrsta bókin í þríleik um Mjallhvíti og það verður skemmtilegt að fylgjast með bókunum sem eiga eftir að koma. Ég myndi kaupa þessa bók fyrir unglinga á öllum aldri sem hafa gaman að góðum spennusögum. Þrjár og hálf stjarna.
[usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.