Piparkökuhúsið er fyrsta bókin sem þýdd er á íslensku eftir sænska höfundinn Carin Gerhardsen.
Þetta er spennusaga af bestu gerð, brjálaður morðingi og klassískar löggur, þ.e.a.s. þessi góða, þessi leiðinlega, ein kona og einn af öðrum kynþætti. Allir ættu að vera sáttir.
Nú hefur verið heilmikil umræða um einelti hér á landi og því passar plottið fínt inn í þann veruleika. Spurningin eða umhugsunarefnið er hins vegar hver er mest sekur, sá sem ræðst á annan, sá sem hvetur til verknaðarins eða sá sem gengur afskiptalaus fram hjá? Er hægt að segja að sá sem rís til hefnda eigi sér málsvörn, er stundum réttlætanlegt að berja til baka – jafnvel drepa?
Það sem gerir eineltið í þessari sögu svo sláandi er að hér er um að ræða mjög ung börn og fullorðinn aðila sem kýs að horfa í hina áttina.
En það er ekki bara einelti, það er líka flotta lögreglukonan Petra sem lendir í mikilli krísu. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig hún þróast í næstu bókum og hvernig henni gengur með sitt.
Öll þau álitamál eða lögreglumál sem upp koma í bókinni eru til staðar í veruleika fólks í dag. Kannski er það málið með þessa bók, þetta er allt eitthvað sem gæti hafa gerst. Einelti er daglegur veruleiki alltof margra og fleiri mál sem upp koma eru alltof oft í fréttum hér.
Mér fannst bókin ótrúlega spennandi og las ég hana í einum rykk. Einnig er skemmtileg nýjung hjá Forlaginu að gefa fólki tækifæri á að lesa nokkrar blaðsíður úr bókum á Issue.com
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.