Paradísarfórn eftir Kristina Ohlsson er spennusaga og það var með ákveðinni tilhlökkun sem ég byrjaði að lesa hana.
Ohlsson er nefnilega einn af mínum uppáhalds höfundum í dag.
Ég varð fyrir smá vonbrigðum því mér fannst hún ekki eins spennandi og fyrri bækur hennar og ég held kannski að það hafi verð efnið sem náði ekki alveg til mín. Samt er þetta efni sem er eitt mesta hræðsluefni ferðamanna í dag, flugvél sem er rænt og hótað að sprengja í loft upp ef ekki er gengið að ákveðnum kröfum.
Ekki misskilja mig, mér fannst bókin vissulega spennandi en fyrri bækur hennar gat ég varla lagt frá mér meðan ég fór að pissa og gat ekki slitið mig lausa fyrr en bókin var búin. Þessi var sem sagt ekki alveg á þeim mælikvarða fyrir mig.
En Ohlsson er fantagóður penni, – það er ekki hægt að neita því og það er nú frekja af minni hálfu að ætlast til að allar bækur hennar virki þannig á mig að þær festist við mig þar til þeim er lokið.
Fyrir þau sem hafa gaman af góðum spennusögum og elska ferðalög þá er þessi bók alveg málið.
Þarna er fallegi flugstjórinn, þarna er flugmaðurinn sem á í eilífum deilum við lögreglumanninn föður sinn, þarna er skemmtilegt rannsóknarlögreglufólk og ný persóna kynnt til sögunnar, Eden Lundell.
Hún er dálítið furðuleg, einskonar skass, ofurgáfuð en nær samt ekki alveg að flokkast sem manneskjan sem við elskum að hata. Hún er svona alveg við það, en það vantar að hrinda henni aðeins fram af brúninni.
Þetta er fín spennusaga til að lesa í sumarfríinu og fyrir þá sem ekki hafa lesið bækur eftir Kristina Ohlsson þá er nú rétti tíminn til að hefja lesturinn. Ég gef henni fjórar stjörnur.
[usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.