Bókin Órói eftir danska höfundinn Jesper Stein er glæpasaga um lögreglumanninn Axel Steen.
Sagan hefst með líkfundi í kirkjugarði sem lögreglan vaktar meðan á uppþoti stendur.
Hvernig kemst líkið þangað inn án þess að lögreglumennirnir á vakt taki eftir því?
Axel Steen er fenginn í málið og hann er all skemmtilegur karakter. Fullur af mannlegum brestum og drifinn áfram af metnaði þess sem vill klára málin og ná vondu körlunum.
Flott saga og örugglega vel skrifuð. Ég las hana á íslensku og verð að segja að það eru vandfundnari lélegri vinnubrögð heldur en þýðingin á þessari bók.
Ég var nokkuð lengi að lesa hana því ég lagði hana nokkrum sinnum frá mér þegar mér ofbauð hroðvirknin.
Það er t.d. mjög algengt að ef um samtöl er að ræða að gæsalappir eru settar rétt á þann sem byrjar að tala, gæsalappir opnar-gæsalappir lokast. Svo svarar viðkomandi og þá eru bara gæsalappir lokast, setningin hangir einhvern veginn í lausu lofti. Ég er mjög hraðlæs og því missi ég stundum af einstaka stöfum, en það tók mig smá stund að átta mig á hvaða vín væri lögguvín – eða löggus-vín. Ég veit ekki alveg hvort ég á að ræða handlegginn á bls. 410: „Hann beið. Svo birtist hendi fram fyrir endann á handlegg.“
Hvað er þetta?
Gæti talið upp fjölda mörg önnur dæmi sem er virkilega fúlt því sagan sjálf er í raun góð. Það er bara þessi vonlausa þýðing og þessi lötu vinnubrögð sem draga hana niður.
Sagan er nefninlega spennandi og aðalsöguhetjan nógu trúverðug til að lesturinn renni vel áfram en allar þessar vitleysur og ambögur eyðulögðu þess bók algjörlega fyrir mér.
Ég gef bókinni 2 stjörnur því ég get bara ekki gefið hærra vegna hroðvirknislegra vinnubragða.
Ef þetta væri skólaritgerð þá hefði ég hent henni fussandi tilbaka og beðið um að viðkomandi færi betur yfir málfar og greinamerkjasetningu.
[usr 2,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.