Ólæsinginn sem kunni að reikna eftir Jonas Jonasson er hin ágætasta skemmtun. Þetta er sami höfundur og skrifaði Gamlinginn sem skreið út um gluggann og sögurnar eru um margt líkar þó þær séu auðvitað gjörólíkar.
Ólæsinginn fjallar um Nombeko Mayeki sem í upphafi sögunnar er ólæs fimm ára stúlka í Suður Afríku.
Hún fær vinnu við að hreinsa kamra og gengur hratt upp virðingarstigann þar til það kemur að því að hún móðgar hvíta yfirmanninn. Hún kemst yfir óvænt auðævi, lendir í bílslysi er lokuð inni fyrir að hafa verið fyrir bílnum, stjórnar smíði kjarnorkuvopna og fleira og fleira. Nombeko er nefnilega engin venjuleg kona og enginn venjulegur ólæsingi heldur en ólæsingjar er nafnið sem herrastéttin í Suður Afríku kallar hina þeldökku verkamenn.
Nombeko er nefnilega miklu meira en bráðvel gefin hún er hreint út sagt alveg frábær og viðkunnanleg líka. Sannkallaður kvenskörungur sem með annarri hendi lærir flókna stærðfræði, talar fjölda tungumála og er góð við náunga sína. Hvað er hægt að biðja um meira í einni kvenhetju?
Lífið ber hana yfir til Svíþjóðar þar sem hún kynnist Holger, manninum sem ekki er til, bróður hans og fleiri skrautlegum aðilum. Sagan flækist um víðan völl með viðkomu hjá sænska kónginum og kínverska forsetanum og fjölda manns þar á milli.
Hljómar þetta flókið? Já þetta er nefnilega flókið en Jonas Jonasson kann þá list að gera flóknustu hluti mjög einfalda og mjög sennilega um leið. Hann kann líka þá list að búast ekki við hinu óvænta heldur hreinlega fara fram úr þeim væntingum þannig að hið óvænta var kannski alls ekki eins slæmt eins og það sem síðan varð.
Í heildina er þetta fín skemmtun með frábærri söguhetju Nombeko Mayeki, skrautlegum aukapersónum og mátulega miklar tengingar við alheiminn til þess að sagan verði trúanleg.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.