Og fjöllin endurómuðu eftir Khaled Hosseini er stór og mikil bók. Þetta er saga um fullt af fólki, fólki sem við fyrstu sýn á fátt eitt sameiginlegt annað en tengjast Afganistan með einum eða öðrum hætti.
Sumir eru fæddir þar aðrir flytja þangað en öll eiga þau það líka sameiginlegt að hafa orðið fyrir einhverjum missi. Sumir vita ekki af því en bera söknuðinn eins og ósýnilega skykkju sem sveiflast reglulega til og minnir á sig. Aðrir eru vel meðvitaðir um sinn söknuð en vita ekki hvernig hægt er að gera annað en lifa með honum.
Bókin gerist í Afganistan, Grikklandi, Frakklandi og Bandaríkjunum og gerist á sextíu ára tímabili. Þungamiðjan snýst um systkinin Pari og Abdullah sem eru skilin í sundur þegar hún er einungis 3 ára og hann er 10 ára. Inn í söguna fléttast fleira fólk sem oft virðist ekki tengjast systkinunum neitt. Atburðir gerast í stríðhrjáðu Afganistan sem hafa áhrif á líf fólks um allan heim.
Ég grét yfir þessari bók, ekki einu sinni og ekki tvisvar. Það er bara ekki hægt annað. Hvernig atburðir sem gerast í fátæku fjallahéraði í Afganistan verða til að breyta lífi fjölda manns. Maður getur bara ekki annað en grátið.
Þetta er mikil saga og góð. Góð að því leyti að höfundur leggur áherslu á að fjölskyldan skiptir máli, sama hvernig hún er samansett. Ástin og vináttan er það sem situr eftir þegar litið er til baka yfir farinn veg. Ekkert ríkidæmi getur bætt aðskilnað við foreldra og/eða systkini og ekkert bætir söknuðinn eða hryggðina yfir því þegar þér finnst eitthvað eða einhvern vanta inn í líf þitt. En það er líka til gott fólk. Fólk sem breytir rétt bara af því það er þannig gert en ætlast ekki til að fá eitthvað í staðinn og það er það sem gerir lífið þess virði að halda áfram.
[youtube]http://youtu.be/QuhZNj8etvY[/youtube]Ef þú ert að leita að æsispennandi spennusögu þá er þetta ekki rétta bókin. Ef þú ert hinsvegar að leita að ljúfsárri bók sem fær þig til að líta í kringum þig og meta fólkið þitt, þá er þetta rétta bókin.
[usr 4]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.