Skuggasund eftir Arnald Indriðason er sautjánda bók hans og hún var búin að fá alþjóðlegu verðlaunin Premio RBA de Novela Negra 2013 áður en hún kom út en það eru verðlaun sem veitt eru fyrir óbirt handrit.
Í þessari bók kemur Arnaldur sterkur aftur inn á ritvöllinn. Erlendur er víðsfjarri og hér er birtist ný aðalpersóna, Konráð lögreglumaður á eftirlaunum. Hann er samt ekkert ósvipaður Erlendi í háttum nema hann hefur ekki sömu djöflana á bakinu og sá góði maður hafði. Hann hefur samt sína djöfla eins og allir hafa.
Bókin flakkar á milli tveggja tíma en Konráð er að skoða mál sem teygir anga sína til stríðsáranna. Hann rekur málið aftur á bak á meðan við fylgjumst með hvernig málinu miðar á stríðsárunum hjá lögreglumönnunum Flóvent og Thorsson. Mér fannst skiptingin milli tíma ganga vel en fannst þó skemmtilegra að lesa um stríðstímabilið og þar sem þar fór fram.
Arnaldur skrifar notalegar bækur. Spennandi en samt ekki þannig að maður gnísti tönnum og langi mest til að hætta lesa áður en maður deyr af hjartaslagi.
Þetta er notaleg spennusaga sem ég las í einum rykk og ég get alveg séð hana fyrir mér sem jólanóttsbókina með nammið við hliðina og kósý ljós.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.