Náðarstund er fyrsta skáldsaga Hönnuh Kent en hún er ungur ástrali sem hér dvaldi sem skiptinemi fyrir einhverjum árum en sagan fjallar um síðustu mánuðina í lífi Agnesar Magnúsdóttur sem hálshöggvin var fyrir hlutdeild að morðinu á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni.
Árið er 1829 og Íslendingar lifa í fátækt og vesöld. Það er kuldi, trekkur og fólk er vont við hvert annað. Það er skítugt og húsin full af sagga og vondri lykt. Maður finnur lyktina og vesöldina drjúpa af hverri síðu. Allir hafa það skítt en ómagarnir og vesalingarnir sem eru á sveitinni þó sýnu verst. Þeir vinna og vinna, fá varla nóg að borða til að lifa daginn af og skítt með það þó einn og einn hrökkvi upp af, þetta eru hvort eð er bara fátæklingar. Börn eru skilin frá mæðrum sínum og send á milli manna við illa vist og systkini eru að hittast á fullorðinsárum og eiga fátt eitt sameiginlegt annað en fátæktina og vesöldina.
Agnes hrífur mann með sér. Hún er stolt og ber sig vel. Fátæktin er hennar fylgifiskur en þó telur hún sig hafa smá von í ömurlegheitunum þegar hún verður ástfangin af Natani sem á sinn eiginn stórbæ og vantar ráðskonu á bæinn.
Þegar til kemur er hann með ráðskonu, barnunga að árum og ekki nóg með það… heldur er hún líka ástkona hans eins og Agnes. Stórbærinn reynist vera afskekkt býli og langt til manna. Natan er illmenni eða kannski er hann líka bara barns síns tíma og þekkir ekki annað en gera það sem hann vill?
Konur eru skör lægra en karlar og ef Agnes er ekki sátt við hvernig hlutirnir eru, þá getur hún farið. Eða hvað? Hann á ástkonur út um allt og sumum fylgja börn. Það er ekki gott að vera ástkona manns sem er veikur á svellinu varðandi konur.
Þetta er ótrúlega vel skrifuð saga og hrífandi. Ég var með kökkinn í hálsinum þegar ég las um örlög Agnesar og samneyti hennar við fólkið á bænum síðustu mánuðina í lífi hennar. Morðinginn sem þau urðu að taka að sér og hýsa með góðu eða illu reyndist vera manneskja af holdi og blóði. Ekki morðóð kona sem linnti ekki við nokkurn mann.
Hannah Kent hefur að mínu mati skrifað stórkostlega bók og ég vona að við eigum eftir að sjá fleiri slíkar bækur í framtíðinni. Tungumálið er hrífandi fallegt og gaman að lesa hin gömlu orð sem mörg hver heyrast ekki lengur. Þýðingin er frábær! Ég hvet alla sem ekki eru búnir að lesa þessa bók að skella sér á hana og fá nýja sýn inn í hina gömlu tíma á Íslandi.
Ég myndi gefa þessari bók meira en fimm stjörnur ef ég gæti.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.