Munaðarleysinginn er ævisaga, eða eins og segir á bókarkápu, örlagasaga Matthíasar Bergssonar. Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar.
Munaðarleysingin er merkileg saga. Matthías er eins og Gamlinginn sem skreið út um gluggann og Forrest Gump, alltaf á réttum stað.
Eða kannski ekki á réttum stað en merkilega oft sem hann er staddur þar sem eitthvað fræga fyrirmennið verður á vegi hans.
Hann er fæddur 1949 á Íslandi en foreldrar hans skilja og hann lendir einhvern veginn á vergangi.
Þvælist á milli heimila þar til góður frændi og kona hans taka hann til sín. Móðir hans flytur til Ameríku, faðir hans er drykkjumaður og getur ekki séð um börnin tvö en Matthías átti einn yngri albróður. Hann eignast hálfsystkini líka, mömmu sinnar megin og föður síns en það er eins og þeim fylgi ekki mikil gæfa börnunum sem voru sammæðra honum.
Matthías þvælist um allan heiminn, nær tengslum við foreldra sína og reynir allskonar hluti. Hann gengur í herinn og vinnur sem fiskimaður.
Matthías og fræga fólkið
Það er gaman að þessari bók. Ótrúlegt að sjá hverja hann hittir af þeim sem eru annað hvort frægir í dag eða voru frægir þegar hann rakst á þá. En ég náði svo sem engum öðrum tengslum við söguna. Ég held að það sé út af því að það er eins og hann sé ekki hluti af sögunni heldur frekar horfi á hana úr fjarlægð. Eins og hann sé að segja frá allt öðrum manni heldur en sjálfum sér og samt er hún skrifuð í fyrstu persónu. Það er dálítið spes finnst mér.
Ekki munaðarlaus en yfirgefinn þó
Ég skil heldur ekki alveg afhverju aftan á bókinni stendur að þetta sé örlagasaga munaðarleysingjans Matthíasar þegar hann svo sannarlega er ekki munaðarleysingi. Hann á móður sem að vísu yfirgaf hann og hann á föður sem nær ekki að halda honum hjá sér. En hann er ekki munaðarleysingi, það er á hreinu.
Þegar hann er barn er komið fram við hann eins og hann eigi engan að, dálítið eins og ómagarnir í gamla daga. Hent á milli fólks og er upp á miskunn ókunnugra. En hann er heppinn því konur taka hann gjarnan undir sinn verndarvæng og þannig nær hann að braggast og verða að manni. Hann finnur líka móður sína í Ameríku og er það ein góð kona sem ól hann upp sem ekki hætti fyrr en hún gróf upp heimilsfang hennar þannig að hann gæti skrifað móður sinni og verið í einhverju sambandi við hana.
Niðurstaða: Þetta er ágætis saga um tíma sem nú eru liðnir. Gaman að því að lesa hverja hann hefur hitt yfir ævina, fólk sem við lesum bara um í fréttum. Vonandi eru þessir tímar samt liðnir sem börnum er þvælt svona á milli fólks en einhvern veginn held ég því miður að svo sé ekki.
Þetta er fljótlesin bók og fær þrjár stjörnur frá mér. [usr 3.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.