Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur er fyrsta bók höfundar og fjallar um kynferðisofbeldi sem móðir hennar, Guðbjörg, varð fyrir í æsku.
Guðbjörg bjó ásamt foreldrum og systkinum í húsi afa síns og beitti hann hana kynferðisofbeldi frá því hún var lítið barn og þar til fjölskyldan flutti í annað hús á unglingsárum hennar.
Mörk er húsið sem þau bjuggu í en í huga mínum voru þetta um leið mörkin sem ofbeldismaðurinn virti ekki. Mörkin sem hann fór yfir ítrekað er hann braut á barninu. Mörkin sem enginn á að fara yfir.
Saga Guðbjargar er saga þöggunar en hún segir sögu sína komin yfir sextugt. Þegar hún talar við eldri frænkur kemur í ljós að þær vissu ýmislegt um afa gamla sem fullorðnir vissu ekki og pössuðu sig á því að vera ekki einar með honum og aldrei að þiggja af honum gjafir því fyrir þær þurfti að borga. Fullorðnir sáu ekki þessa hlið og móðir hennar grét er hún heyrði alla söguna. Hún hafði grunsemdir en barnið þorði ekki að staðfesta þær er gengið var á hana þannig að málið fór ekki lengra.
Í huga mínum er barnaníð það óhugnanlegasta sem fyrir finnst. Þegar fullorðið fólk virðir ekki sín mörk og beitir börn ofbeldi af einum eða öðrum toga. Þögnin eða þöggunin viðheldur þessu og sagan sýnir okkur að stundum veit fólk af þessu en kýs að líta í aðra átt. Kýs að skipta sér ekki af og er það í mínum huga hræðilegur glæpur, hvernig getur fólk lifað með sjálfu sér, vitandi að verið er að misnota barnið í næsta húsi?
Nú hafa á ekki svo löngum tíma komið út fjórar bækur sem allar fjalla um kynferðisofbeldi gagnvart börnum.
Það er Mörk sem hér er fjallað um, Hljóðin í nóttunni eftir Björgu G. Gísladóttur, Ekki líta undan eftir Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Myndin af pabba – saga Thelmu eftir Gerði Kristnýju.
Allar þessar bækur fjalla um menn sem misnota aðstöðu sína gagnvart börnum og fara yfir mörkin, fara úr okkar heimi yfir í dimman heim obeldis.
Börnin sem lenda í þessum mönnum segja ekki frá fyrr en þau eru orðin vel fullorðin og geta ekki þagað lengur.
Geta ekki lengur tekið til sín skömmina sem aldrei var þeirra. Þau bera ör sem aldrei hverfa, það er hægt að vinna í sálartetrinu en það er aldrei hægt að afmá örin og afleiðingar ofbeldisins að fullu.
Mörk er vel skrifuð og nær til lesenda. Óhugnaðurinn skín í gegn en um leið væntumþykja barnsins til afa síns. Hann er skrímsli en hann er líka afi og það er það sem er svo erfitt fyrir hugann að grípa, þegar væntumþykja og skömm togast á. Þarf ég að mæta í jarðaförina? Á ég að syrgja manninn sem rændi hluta af mér og verður aldrei eins?
Hvet ykkur til að lesa þessa bók, hún er ekki löng og hún er vel skrifuð. Lýsir gömlu Reykjavík á fallegan hátt og á sama tíma er óhugnaðurinn í lífi barnsins undirliggjandi.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.