Með lífið að veði heitir mögnuð sjálfsævisaga ungrar konu að nafni Yenomi Park. Bókin kom útí vor í íslenskri þýðingu hjá Bókafélaginu en er upprunalega gefin út árið 2015 af Penquin.
Yenomi er fædd árið 1993 sem gerir sögu hennar enn áhugaverðari enda ekki daglega sem við lesum “ævisögur” einstaklinga sem eru svo ungir að árum. Þetta er því samtímasaga sem segir frá því sem er að gerast í heiminum í dag. Frásögn frá fyrstu hendi um ástand og aðstæður fólks í landi sem ætti ekki að vera til.
Fyrsti hluti bókarinnar segir frá æskuárunum í Norður-Kóreu. Þau voru vissulega ömurleg, en þó góð miðað við það sem síðar átti eftir að gerast. Yenomi og fjölskylda hennar höfðu stundum í sig og á, eða allt þar til pabbi hennar var dæmdur fyrir að selja ólöglega málma. Dómurinn, sautján ár í þrælkunarbúðum. Þegar einn fjölskyldumeðlimur í Norður-Kóreu gerist sekur um glæp þá fara allir niður með viðkomandi og við tók skelfingartímabil í lífi Yenomi, móður hennar og systur.
Móðir þeirra neyddist til að yfirgefa þær meðan hún fór út að leita að mat og vinnu og skildi þær systur eftir einar í óupphituðu húsnæði um hávetur í nokkra mánuði. Átta og tíu ára. Það eina sem þær höfðu að borða var poki af hrísgrjónum. Það er algjört kraftaverk að þær lifðu þetta af.
Lífið varð svo æ svartara og á endanum var aðeins um tvennt að velja fyrir mæðgurnar. Að deyja úr hungri í Norður-Kóreu eða reyna að komast yfir til Kína og vona að eitthvað betra tæki við. Þetta var árið 2009.
Mansal og ofbeldi
Í mörg ár var Kínverjum aðeins leyft að eignast eitt barn á fjölskyldu. Þetta varð til þess að stúlkubörn voru borin út og nú ganga konur og stúlkur frá Norður-Kóreu kaupum og sölum á svörtum markaði þar í landi þar sem þær eru seldar sem eiginkonur til mis vandaðra manna.
Þær voru ekki fyrr komnar yfir landamærin að Yenomi og móðir hennar urðu fórnarlömb mansals, nauðgana og skelfilegs ofbeldis. Þrettán ára horfði Yenomi upp á menn nauðga móður hennar. Þeir vildu Yenomi en mamma hennar bað þá um að taka heldur sig.
Eftir þetta voru allar þrjár seldar hver í sína áttina. Systur sína fann Yenomi ekki aftur fyrr en hún var komin til Suður-Kóreu en eftir að mamma hennar var seld í burtu linnti Yenomi ekki látunum fyrr mansalinn og „eiginmaður” hennar hafði upp á móðurinni í einhverjum uppsveitum Kína. Til að róa kornunga eiginkonuna (Yenomi var 13 ára) keypti hann mömmu hennar aftur til baka og því voru þær tvær að mestu saman í Kína.
Þær bjuggu við grimmilegar aðstæður þar í landi þar til þeim tókst með flóknum leiðum og óvæntri aðstoð að flýja til Mongólíu og þaðan yfir til Suður-Kóreu þar sem þær fengu hæli sem flóttamenn og gátu byrjað að laga sig að frelsinu.
Í dag er Yenomi flutt til Bandaríkjanna. Hún hefur helgað líf sitt baráttu fyrir Norður-Kóreufólk og ferðast um heiminn til að segja sína sögu og sögu þeirra sem enn búa við ótrúlega frelsisskerðingu og þjáningar í Norður-Kóreu.
Gaman er að segja frá því að Yenomi gifti sig nýlega Bandaríkjamanni en myndir af því má skoða hér og hér má fylgjast með Yenomi á Facebook. Það gefur svo kannski auga leið að hún er eftirlýst af harðstjórunum í Norður-Kóreu fyrir landráð og lygar en slík er túlkun þeirra á baráttunni fyrir frelsi.
Tekin af lífi fyrir að horfa á Hollywoodmynd
Í Norður-Kóreu er ekkert frelsi. Bókstaflega ekkert. Þegnar landsins eru vaktaðir daginn út og inn. Fólki er sagt hvað það á að gera, hvað það má læra, við hvað það má vinna, hvað það á að hugsa og hvernig það á að hugsa um það. Þú ræður heldur ekki hvern þú elskar, hvað þú lest, hvaða tónlist þú hlustar á, hvaða lög þú syngur, á hvaða myndir eða sjónvarpsefni þú horfir.
Í Norður-Kóreu er með öllu bannað að horfa á kvikmyndir frá Bandaríkjunum. Í bókinni lýsir Yenomi til dæmis því hvernig lögreglan tók rafmagnið fyrirvaralaust af húsum og braut svo upp dyrnar hjá fólki. Gerði myndbandstæki upptæk og ef þú varst sek/ur um að horfa á Hollywood mynd gat það kostað þig lífið. Því voru sumir sem brugðu á það ráð að hafa tvö myndbandstæki til taks og í öðru þeirra var alltaf VHS spóla með ríkisvottuðu efni um Kim-ana. Hitt, þetta með Disney spólunni, var falið um leið og rafmagnið fór af.
Takk litla friðsæla, frjálsa Ísland
Af mörgum ástæðum þykir mér þetta stórkostlega merkileg saga. Að lesa um aðstæður þessarar ungu konu, og lífið í þessu fáránlega helvíti sem Norður-Kórea er, framkallar skelfingu en líka þakklæti fyrir að hafa aldrei þurft að upplifa sambærilegar hörmungar og þetta vesalings fólk þarf fara í gegnum. Við lestur bókarinnar verður maður enn þakklátari fyrir að hafa fengið að fæðast í okkar friðsæla og frjálsa landi.
Ég gæti rakið söguna áfram í löngu máli og smáatriðum en ætla að láta það eiga sig og skora heldur á þig að lesa hana.
Svo ég vitni nú beint í Yenomi Park sem tók upp á því að lesa heimsbókmenntirnar af miklum fróðleiksþorsta um leið og hún komst yfir til Suður-Kóreu og fékk tækifæri til þess:
NIÐURSTAÐA: Með lífið að veði skilur lesandann eftir með breytta sýn á lífið og tilveruna og það eru jú alltaf bestu bækurnar. Það er engin ástæða til annars en að gefa henni fimm heilar stjörnur.
[usr 5]
Hér segir Yenomi sögu sína á mannúðarráðstefnu í Írlandi árið 2014:
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.