María heklbók eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldar er önnur heklubók höfundar en sú fyrri Þóra heklbók kom út árið 2011 og var þá fyrsta bók sinnar tegundar í meira en hálfa öld á Íslandi.
Tinna hannaði allar uppskriftirnar í Maríu heklbók sjálf en í bókinni eru 25 uppskriftir af ýmsum hlutum; t.d. sjölum, húfum, sokkum og ýmsu jólatengdu. Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi eða geta notað grunn frá uppskriftunum og hannað sínar eigin uppskriftir.
Bókinni fylgir einnig ágætis leiðbeiningakafli en Þóra leggur mikið upp úr því að lesendur bóka hennar geti lesið uppskriftir eftir myndum og eftir hefðbundnum uppskriftum.
Kostur við báðar bækurnar að mínu mati er að þær eru gormaðar þannig að hægt er að hafa þær opnar á þeirri uppskrift sem verið er að vinna með án þess að bókin skemmist nokkuð við það. Bókin er skemmtilega myndskreytt þannig að hver hlutur njóti sín sem best.
Allir heklarar ættu að eiga eintak af þessari bók, þó ekki nema væri til að styðja þetta frábæra framtak hjá Þóru. Gaman líka að nefna það að bækurnar heita eftir ömmum hennar, fyrri bókin er langamman og seinni bókin amman.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.