Mánasteinn, drengurinn sem aldrei var til, eftir Sjón. Ég hef aldrei lesið neina bók eftir Sjón fyrr en nú… Þessi bók gagntók mig alveg og sumar síðurnar las ég tvisvar bara til að njóta þeirra betur.
Mánasteinn fjallar um vinalausa drenginn Mána Stein sem býr í Reykjavík árið 1918. Hann býr hjá gamalli frænku sinni og hann tekur lítinn þátt í lífinu öðru vísi en sem áhorfandi.
Sagan nær yfir nokkrar vikur í lífi hans, spænska veikin geisar og fólk deyr um allan bæ. Máni Steinn lifir veikina af og er fenginn til að aðstoða lækninn við sjúkraheimsóknir.
Líf hans snýst um kvikmyndir og hann sér allar myndir sem sýndar eru í kvikmyndahúsum bæjarins og sumar mörgum sinnum. Til þess að fjármagna þetta þjónustar hann karlmenn sem hann kallar kóna, gegn greiðslu.
Máni Steinn fer um bæinn sem skuggi og fylgist með fólki milli þess sem hann þjónustar karlmenn til þess að eiga fyrir kvikmyndasýningunum. Í gegnum kvikmyndirnar lærir hann að lesa fólk og líkamstjáningu og getur lesið úr augnatilliti hver er væntanlegur kóni.
Mér finnst þetta ótrúlega góð bók. Ég naut hverrar blaðsíðu og hefði getað lesið miklu meira en var í boði. Hver kafli er mátulega langur og tilfinningaleysi drengsins við umhverfi sitt er algjört eins og berlega kemur fram í fyrsta kaflanum. Þar er hann að þjónustu kóna en um leið er hann að hlusta á vélarhljóð og fylgjast með hvort það nálgast eða ekki.
Ég hvet fólk til að lesa þennan gullmola það er ekki hægt annað en njóta sögunnar alveg frá byrjun til enda, – jafnvel þó verið sé að fjalla um hræðilegan tíma í sögu þjóðarinnar.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.