Mamma, pabbi, barn er eftir sænska höfundinn Carin Gerhardsen. Þetta er spennusaga ef bestu gerð.
Lítil stúlka vaknar alein í íbúð, hvar eru allir? Ungbarn finnst hálfkróknað í runna og látin móðir þess rétt hjá. Tvær systur á ungingsaldri eru að upplifa hluti sem unglingsstúlkur ættu ekki að þekkja. Hvað er að gerast? Fullt af fólki sem ekkert virðist tengjast í fyrstu fléttast svo saman í gríðarlega hraðri og spennandi atburðarrás.
Í fyrstu ætlaði ég að láta það fara í taugarnar á mér hvað litla stúlkan virtist hugsa fullorðinslega en svo ákvað ég að láta það ekki eyðileggja spennuna fyrir mér. Systurnar tvær virðast stefna í örugga átt beint í dauðann og spennan eykst á hverri síðu, ná þær að komast undan eða ekki?
Lögreglufólkið er það sama og í sögunni Piparkökuhúsið eftir sama höfund. Conny, Petra og Jamal. Conny er giftur með fimm ung börn. Petra með allskonar þung mál á bakinu, þar á meðal nauðgun sem hún hefur ekki sagt samstarfsmönum sínum frá og Jamal gefur lítið upp um sjálfan sig.
Þetta er teymið sem leitar lausna við málunum sem tæpt er á hér að ofan og í fyrstu virðast ekki tengjast neitt.
Svo koma líka fram allskonar perrakarlar, áfengissjúk móðir og fleira fólk. Þessi blanda er hrist saman og úr verður æsispennandi krimmi sem ég gat bara ekki lagt frá mér.
Ég var því ansi framlág þegar ég vaknaði næsta morgun eftir að hafa sofið í fjóra tíma. Ég gef henni fimm spennustjörnur, annað er ekki hægt.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.