Einhverra hluta vegna var ég ekki alveg nógu opin fyrir bókinni Málarinn þegar ég hóf lesturinn þar sem ég vissi lítið um bókina og mér fannst titillinn ásamt lýsingu á sögunni ekki nægjanlega spennandi.
Það breyttist reyndar fljótlega eftir að ég hóf lesturinn þegar ég fann hvernig höfundurinn Ólafur Gunnarsson var lunkinn að skapa lúmska spennu á bak við orðin sín þannig að maður áttaði sig ekki alveg á hvaða leið bókin var. Þegar líða tók á bókina var hún orðin að spennutrylli og tóku persónurnar stöðugum breytingum í bókinni sem hafði þau áhrif að ég var farin að óttast um heilbrigði þeirra
Í stuttu máli fjallar bókin Málarinn um Davíð, misvirtan málara á Íslandi, sem nýtur vinsælda hjá almúganum en ekki hjá listaelítunni þar sem verkin hans seljast grimmt á meðal almúgans. Það hefur verið draumur hjá Davíð að verða virtur málari síðan hann fékk gjöf frá Kjarval ungur að aldri en þar sem elítan ber ekki þá virðingu fyrir honum sem honum þykir hann eiga skilið er hann aldrei fyllilega sáttur sem málari.
Þegar Davíð kynnist stórum viðskiptamönnum á Íslandi tekur líf hans aðra stefnu og upp koma brestir í einkalífinu sem hafa hræðilega afleiðingar sem gerir það að verkum að maður leggur ekki bókina frá sér. Ég var oft að hugsa um hvort að bókin hefði mátt vera örlítið styttri, þar sem oft er tiplað á sömu hlutunum, en svei mér þá, þá held ég bara ekki.
Lestu hér meira um bókina sem hefur hlotið mikið lof.
Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson er spennutryllir sem skilur lesandann eftir í lausu lofti þannig að maður hefur mikla þörf fyrir að ræða bókina – en það þykir mér alltaf gaman að þegar kemur að bókum og bíómyndum.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.