Maður sem heitir Ove eftir Fredrik Backman var í fyrsta sæti á íslenskum listum í mestallt sumar.
Ég var eitthvað aðeins að draga fæturna með að lesa hana, hélt að þetta væri einhver gamlingjabók sem hentaði mér engan veginn en einn daginn rataði hún til mín og ég byrjaði að lesa og ég var gjörsamlega heilluð af Ove. Ég las fram á nótt og mætti illa sofin í vinnuna en það var þess virði.
Ove er gamall fúll karl. Hann er samt ekkert mjög gamall, 59 ára er ekkert mjög hár aldur en Ove er GAMALL. Hann er beiskur út í lífið og hatast við allt og alla. Hann er líka einmana. Mjög einmana. Eftir því sem líður á söguna rennur upp fyrir manni að Ove er ekkert svo fúll, hann er bara svona gerður. Reglur eru reglur og þeim á að fylgja og í einmanaleika sínum er hann sjálfskipaður eftirlitsmaður á hinar og þessar reglur.
En svo breytist allt. Nýju nágrannarnir fatta bara ekki reglurnar og þau hætta ekkert og fara þó Ove reyni að koma þeim í burtu. Nei, þau halda áfram að banka upp á og biðja um greiða eða koma til að borga greiða eða bara til að skamma Ove fyrir hvað hann er kassalaga. Og smá saman fer heimur hans að riðlast og breytast. Það koma sprungur í reglugaurinn og hann fer allur að meyrna.
Ove er svona karl sem ekki er hægt annað en elska. Ekki misskilja mig, ég myndi deyja ef hann væri nágranni minn en í bókinni fær maður innsýn í það afhverju hann er eins og hann er og það er bara ekki hægt annað en elska hann og vorkenna honum og hlæja með honum. Ove elskar líka. Hann elskar Sonju sína sem er allt sem hann er ekki. Hún er glöð og kát og elskar lífið og Ove en það er samt henni að kenna hvað Ove er einmana í upphafi bókarinnar. Og Ove vill vera áfram með henni en þessir nýju þreytandi nágrannar láta hann bara ekki í friði og einhver verður jú að passa upp á reglurnar.
Þessi bók er ekki bara um Ove og baráttu hans við allt og alla. Nei hún er einskonar óður til þess að vera smá öðru vísi. Að við erum ekki öll eins og það er bara allt í lagi.
Ove er minn maður og það er á hreinu að ég á eftir að lesa hann aftur og njóta ákveðinna kafla aftur.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.