Þegar ég tók upp bókina Má ekki elska þig eftir Jenny Downham rithöfund metsölubókarinnar Áður en ég dey, hugsaði ég með mér að hér væri um dæmigerða Rómeó og Júlíu bók að ræða og fannst mér spennandi að vita hvernig rithöfundi tækist að fanga athygli mína við lestur bókarinnar án þess að láta mér leiðast, þar sem sögufléttan er í raun þaulþekkt og ætti ekkert að koma manni á óvart.
Mikey er átján ára drengur með þann draum að verða kokkur, á heima í bæjarblokk með systrum sínum tveim og drykkfelldri móður. Ellí er sextán ára dæmigerð yfirstéttarstúlka býr í fínni villu með bróður sínum, móður og föður.
Leiðir Mikey og Ellíar renna saman þegar systir Mikey sakar bróður Ellíar um að hafa nauðgað sér og ætlar Mikey að ná fram hefndum en eftir fyrstu tilraun sem misheppnast fellur hann fyrir Ellí og þau fara að hittast á laumi.
Bókin Má ekki elska þig grípur mann strax í fyrsta kafla.
Hún kemur sér beint að efninu og rennur ljúflega um huga manns meðan maður gleymir stað og stund í dæmigerði ástarsögu sem hefur þó ákveðinn sjarma sem gerist í nútímanum.
Bókin lætur mann hugsa um hvað fólk gerir til að verja börnin sín fram í rauðan dauðann þrátt fyrir að vita innst inni að þau eru ef til vill ekki saklaus, hvernig er að lifa með leyndarmál sem getur haft áhrif á líf annarrar persónu til hins verra og hvort það sé rétt eða rangt að standa með sjálfum sér eða fjölskyldunni þegar maður veit sannleikann.
Ég mæli með þessari bók, hún er auðlesin, grípandi og hentar breiðum lesendahóp sem á sannarlega heima í sumarbókaflórunni.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.