LKL2 eftir Gunnar Má Sigfússon er bók um lágkolvetnamataræði en þetta er önnur bók höfundar um þetta efni.
LKL stendur fyrir lágkolvetna lífsstíl en höfundur leggur á það áherslu að þetta er ekki megrunarkúr heldur breyttur lífsstíll. Í þessu felst að fólk minnkar neyslu sykurs og annarra kolvetniríkra fylli- og aukaefna.
Bókin hefst með fræðslu um ýmsa þætti mataræðisins og síðan koma hugmyndir að morgunmat. Þá koma matseðlar fyrir sex vikna tímabil og í þeim felast aðalréttir og nokkrir eftirréttir. LKL2 er aðeins öðru vísi en fyrri bókin að því leyti að í seinni bókinni er birtur einn réttur á dag meðan í fyrri bókinni voru þrír réttir; morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.
Mér finnst réttirnir girnilegir og þeir sem ég er búin að prófa eru mjög góðir. Bókin er ágætlega upp sett og þægilegt að lesa hana og hún er með fallegum og girnilegum matarmyndum.
Þó er eitt sem ég verð að setja út á og það er skortur á næringarinnihaldslýsingum á réttunum. Í LKL mataræðinu er fólk hvatt til að lesa alltaf á matvörur sem það er að kaupa sér. Þessar upplýsingar vantar alveg í bókina. Mér finnst ekki nóg að vita hvað er í réttunum, ég vil líka vita hversu mörg grömm af kolvetnum og hversu mikil fita.
Það hefði gert bókina svo miklu betri ef þetta hefði verið sett með en annars góðar uppskriftir.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.