Ljós af hafi eftir M.L. Stedman er sorgleg bók sem leitar á hugann eftir að lestri lýkur.
Hún fjallar í grófum dráttum um hjón sem búa á afskekktum stað í Ástralíu og sinna vitavörslu. Konan hefur þrisvar misst fóstur og það tekur mikið á þau.
Dag einn rekur bát upp að eyjunni og í henni er látinn maður og grátandi ungabarn. Það skal tekið fram að þetta á að gerast í kringum 1920 þegar samgöngur eru slæmar og það tekur langan tíma fyrir bréf að berast á milli manna. Hvað gerir fólk í svona aðstæðum? Lætur það vita atburðum eða tekur barnið þegjandi og hljóðalaust að sér?
Það er auðvelt að segja að maður myndi gera hið rétta og láta yfirvöld vita en myndi maður í alvöru gera það í svona aðstæðum? Ég veit það ekki, ég veit það svei mér ekki og það er þess vegna sem sagan heldur áfram að leita á hugann eftir að lestri lýkur.
Þetta er hádramatísk bók og maður sveiflast milli þess að langa til að hrista þau hjónin eða gráta með þeim.
Þegar ákvörðun er tekin þá hefur hún áhrif á fjölda manns því enginn er eyland og því koma flestar ákvarðanir til með að hafa áhrif bæði til góðs og ills.
Ákvarðanir fullorðinna hafa svo auðvitað alltaf áhrif á líf barna og að lesa um sálarstríð blessaðs barnsins er nóg til græta flesta hugsa ég. Á eftir sorg kemur oft heift og reiði og það gerist líka í þessari sögu. Heiftin og sorgin eru samofnar og það er spurning hvað verður ofan á.
Þetta er bók sem allir ættu að lesa sem hafa gaman að pælingum um mannlegt eðli og hvernig fólk bregst við þegar því hefur verið stillt upp við vegg.
Ekki er verra ef hægt er að finna einhvern til að ræða við eftir að lestrinum lýkur en bókaklúbburinn minn átti langar samræður um bókina og sýndist sitt hverjum. Ég ætla að gefa henni fjórar stjörnur
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.