Litlu Dauðarnir heitir nýjasta bók metsöluhöfundarins Stefáns Mána.
Í þessari bók leitast Stefán við að segja þroskasögu af ‘venjulegum’ millistéttarmanni en hasarinn gerist að mestu innra með þessum manni sem heitir Kristófer og er bankamaður, giftur endurskoðandi og faðir á þrítugsaldri.
Sagan gerist að mestu síðla árs 2008 þegar hið svokallaða bankahrun gekk yfir. Kristófer missti vinnuna og varð alveg stjarfur eins og allir sem unnu í banka á þessum tíma, gott ef ekki bara öll þjóðin? Við urðum flest hálf stjörf þetta haustið enda náði þjóðardramað sögulegu hámarki og trompaðist inni í, fyrir framan, á bak við og ofan á sjálfu Alþingishúsinu.
Hræddur við vandamál og höfnun
Söguhetjan Kristófer er sjálfur geðveikislega lítið fyrir drama. Hann er í raun það sem danir kalla “konfliktsky” – Manngerðin sem veit hreinlega ekkert verra en að standa í deilum, horfast í augu við vandamál og taka á þeim. Hann lýgur og býr til loftkastala, allt í þeim tilgangi að forðast deilur og já… Höfnun.
Auðvitað hefur slík hegðun sínar afleiðingar og um þær lesum við í þessari sögu. Kristófer greyið verður hreinlega kekkjóttur að innan af allri lyginni og í kringum það skapast spenna.
Ég las þessa bók í tveimur lotum sem segir sitt um hvað Stefán Máni er fær í að skrifa flæðandi texta.
Maður rennur með honum eins og flínkur ræðari í river rafting. Stundum þaut maður áfram í vatnsmikilli ánni þegar atburðarrásin var hröð og stundum reri maður þetta í rólegheitum… en alltaf var ég spennt. Það var alltaf eitthvað að gerast.
Að kafna í eigin sálarflækjum
Kannski var það vegna þess að ég las hana í tveimur lotum sem mér fannst bókin hafa fyrri og síðari hluta. Sá fyrri í höfuðborginni, sá síðari í sveitinni.
Fyrri hlutinn fannst mér frábær. Ég elskaði lýsingarnar af þessu furðulega ástandi sem myndaðist hér í ‘hruninu’, samtölin og týpurnar.
Seinni hlutinn fannst mér erfiðari – en kannski var það bara af því það er örugglega ákaflega erfitt að vera svona maður eins og Kristófer – sjálfsskipaður aumingi að kafna í eigin sálarflækjum.
Hann kom sér líka í mjög erfiðar aðstæður, sem urðu alltaf erfiðari og erfiðari þannig að manni langaði á köflum inn í bókina í þeim helga tilgangi að löðrunga manninn. Ná honum út úr þessari andlegu kreppu.
Mig langar að gefa henni þrjár og hálfa en þunginn fer að mestu á fyrri hluta bókarinannar sem mér fannst alveg frábær. Síðari hlutinn var ekki eins þéttur en bókin er engu að síður algerlega lestursins virði.
Gott uppgjör við þetta tímabil og góðir karakterar, skemmtilega jungískar skírskotanir og gaman að þessi vinsæli höfundur skuli prófa að fara út fyrir þægindarammann með því að máta sig í öðruvísi formi en hann hefur vanist. Það verður bara meira spennandi að lesa næstu bók.
[usr 3.5]
I’m sinking in the quicksand of my thought
And I ain’t got the power anymore
Don’t believe in yourself
Don’t deceive with belief
Knowledge comes with death’s release
– Quicksand, David Bowie 1971.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.