Nýlega kom út bókin Líf annarra en mín eftir franska rithöfundinn Emmanuel Carrére.
Sagan hefst í desember árið 2004 þegar höfundurinn er í fríi á Sri Lanka með unnustu sinni Helenu og sonum. Það er algjör tilviljun sem ræður því að þennan örlagaríka morgun, þegar flóðbylgjan (tsunami) ríður yfir, að parið hefur ákveðið að fara ekki á ströndina heldur vera í rólegheitum á hótelinu sem er staðsett á háum kletti.
Það verður til þess að bjarga lífi þeirra. Kvöldið áður voru Emmanuel og Helena að hugleiða skilnað. Þau bjuggu hvort sem er ekki saman, áttu ekki börn saman og voru bæði með á hreinu að þetta væri síðasta sameiginlega fríið þeirra.
Á einu augnabliki eyðir flóðbylgjan lífi þúsunda manna og Emmanuel og Helena verða vitni að dauða lítils barns vinahjóna þeirra. Það atvik, ásamt allri skelfingunni sem er afleiðing flóðbylgjunnar, er lífsreynsla sem Emmanuel fann sig hreinlega knúinn til þess að skrifa um.
AÐ ÞORA AÐ ELSKA OG ÞIGGJA ÁST
Skömmu eftir að parið snýr aftur heim til Frakklands, greinist systir Helenu með ólæknandi krabbamein og deyr. Þessi tvö dauðsföll fólks sem tengjast Emmanuel náið verða til þess að kenna honum að þora að elska og þiggja ást sjálfur. Hann hafði verið leitandi; skorti þennan skilning áður en harmleikirnir tveir áttu sér stað.
Bókin fjallar um hversu sterk sambönd við myndum við annað fólk í lífi okkar og lesningin var fyrir mér ákveðið ferðalag í gegnum sársauka, hugrekki og magnaða ást. Emmanuel Carrére veltir upp ýmsum heimspekilegum spurningum og pælingum, eins og t.d. eftirfarandi útdráttur ber vott um:
BRESTIR Í TILVISTARKJARNANUM?
,,Prófessorar í hamingju líta á depurð sem smekkleysu, geðlægð sem leti, þunglyndi sem synd. Ég er sammála, það er synd, meira að segja dauðasynd en til eru þeir sem fæðast syndarar, sem fæðast fordæmdir og jafnvel þótt þeir reyni af alefli, sýni mikinn kjark, séu allir af vilja gerðir, þá geta þeir ekki losnað undan hlutskipti sínu. Milli þeirra sem eru með bresti í tilvistarkjarnanum og hinna er spenna eins og milli ríkra og fátækra, vissulega eru sumir fátækir sem ná sér upp úr því ástandi en fæstir gera það og að segja við þunglyndissjúkling að hamingjan byggist á ákvörðun, það er eins og að segja við banhungraðan mann að hann skuli bara fá sér kökur.”
Þýðandi bókarinnar er Sigurður Pálsson.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.