Leynigarður er litabók fyrir fullorðna eftir Johanna Basford.
Litabók fyrir fullorðna hvað bull er það?
Ég get sagt ykkur að það er sko bara alls ekki neitt bull heldur alveg hrein snilld. Bókin er stútfull af myndum til að lita og hver mynd er full af yndislegum smáatriðum.
Hver og einn getur litað myndirnar með þeim litum sem henta hverju sinni.
Þannig kjósa margir að nota áherslupenna, tússliti, tréliti eða tréliti sem hægt er að leysa upp eða jafnvel bara vatnsliti. Ég hef séð erlendar myndir úr þessari litabók sem málaðar eru með „makeup“ litum, alveg ótrúlega flottar.
Margar myndirnar, sem hægt er að skoða á vefnum, eru hrein listaverk. Þannig er hægt að lita bara einfalda mynd eða fara út í flóknar skyggingar. Ótrúlega skemmtilegt að spá aðeins í litafræðinni og sjá síðan hvað aðrir eru að gera.
Ég fór af stað og keypti mér þessa bók eftir að hafa dottið inn í Facebook hóp þar sem allir eru að lita og skiptast á hugmyndum.
Það er alveg ótrúlega gaman og notalegt að sitja og lita og reyna að finna myndina kalla til sín. Nú er bara enginn tími til lestrar því allur tíminn fer í að lita og lita. Ég ætla ekkert að gefa þessari neinar stjörnur þar sem það er ekki mikið lesmál í henni og mér finnst ekki beint passa að gefa henni stjörnur.
Segi bara eins og er að ég dýrka hana.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.