Leðurblakan eftir Jo Nesbø er fyrsta sagan um norska lögreglumanninn Harry Hole, skrifuð árið 1997.
Hún kemur út á íslensku árið 2013 og ég get bara ekki hætt að undrast yfir því af hverju bækur eru ekki þýddar í þeirri röð sem þær koma út. Smá tuð af minni hálfu en ég hreinlega pirrast þegar bækur eru þýddar í svona rangri röð.
Þessi bók veitir innsýn í það hvers vegna Harry Hole er eins og hann er. Einmana fylliraftur sem sífellt á í útistöðum við yfirmenn sína í lögreglunni.
Sökum þess hve vel hann starfar þegar hann er í góðu formi þá er hann alltaf kallaður inn aftur í erfiðustu málin og hann leysir þau með glans.
Ég dýrka Harry Hole en þessi bók er samt einna sísta bókin um hann, kannski af því þetta er fyrsta bókin og Nesbø á eftir að slípa hann eitthvað til? Ég veit það ekki en mér fannst samt eitthvað vanta.
Harry er þarna ungur að árum og er sendur til Ástralíu til að aðstoða lögregluna þar við rannsókn á morði ungrar, norskrar stúlku.
Hann lendir í ýmsu eins og hans er von og vísa; verður ástfanginn, dettur í það, lendir áflogum og svona ýmislegt sem Harryar þessa heims lenda gjarnan í.
Svona að frátöldu þessu með að vera ekki réttri röð þýðinganna (ég nenni bara ekki að lesa á frummálinu og neyðist því til að bíða eftir þýðingum á þessum ágæta manni) þá er þessi bók alveg ágæt.
Svolítið lengi að fara af stað en nær ágætu flugi. Góð bók í sumarfríið.
Ég gef henni þrjár og hálfa stjörnu.
[usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.