LCHF Södd og sátt – án kolefna er eftir Jane Faerber sem skrifar eitt vinsælasta LKL blogg í Danmörku. Hún hefur verið í þessum lífsstíl í rúm þrjú ár og segir þetta hafa gjörbreytt lífi sínu.
Bókin samanstendur af góðum lýsingum á því fyrir hvað LKL stendur og margvíslegum uppskriftum.
Mér finnst þetta mjög skemmtileg bók. Hún er vel upp sett, með góðum skýringum og mjög góðum uppskriftum. Ég er búin að vera í þessum lífsstíl í átta mánuði og það sem truflar mig mest við LKL uppkriftir er mikið magn af allskonar sætuefnum. Í þessum uppskriftum eru sætuefnin í lágmarki sem mér finnst æðislegt!
Ég er búin að prufa nokkrar uppskriftir og er komin með nýjan uppáhalds morgunmat sem er Djöflaegg með ýmiskonar fyllingum. Ó mæ gooood hvar hef ég eiginlega verið?! Þetta er svo gott!
Annað frábært að mínu mati er Tómatsalsa með koríander, ekkert smá gott og ég nota það með öllu núna. Ég elska Carbonara og það er uppskrift að einu í bókinni, Kolvetnasnautt Carbonara. Held það komst á listann yfir það sem verður eldað reglulega hér á bæ um ókomin ár.
Mér finnst uppskriftirnar vel upp settar, myndirnar flottar og svo elska ég litina og letrið. Já letrið, skiptir það máli í matreiðslubók? Já mér finnst það og í þessari bók eru allir titlar með krúttlega skökku letri meðan megintextinn er með mjög læsilegu letri. Mjög vel heppnað.
Eina sem ég set út á og gerir það að verkum að ég gef henni ekki fullt hús er að það vantar innihaldslýsingar. Ég vil hafa innihaldslýsingar og ég nenni ekki að fara í fullt af töflum til að finna þær.
Að öðru leyti finnst mér þessi bók frábær og hún er með í töskunni alla daga þar sem ég er ekki alveg nógu skipulögð að ákveða mig kvöldið áður hvað ég ætla að prufa næst. Matarbloggið hennar er HÉR en bókinni gef ég fjórar og hálfa. Virkilega góð.
[usr 4.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.