Lausnin er ný bók eftir Evu Magnúsdóttur og er fyrsta bók höfundar svo vitað sé. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að skrifa um þessa bók og er búin að veltast með það í nokkra daga.
Það eru ákveðin atriði sem stuða mig en svo eru önnur sem eru allt í lagi. Spurning að setja þetta upp eins og samlokuaðferðina, hrósa, neikvæðar athugasemdir og hrósa svo aftur. Það gæti virkað.
Sagan fjallar um Lísu blaðamann í lífskrísu. Hún er nýhætt með kærastanum, býr ein í risastóru íbúðinni sem þau keyptu sér saman og er með bíl á kaupleigu. Hún er óhamingjusöm og döpur en þá rekst hún á auglýsingu frá Lausninni sem lofar að koma hamingju inn í líf fólks. Ekkert smáræðis afrek það og spurning hvort svoleiðis sé hægt?
Það vantar allt fútt
Þetta er fyrsta bók höfundar og sem slík er hún bara fín. Ég var lengi að byrja, tók tvö, þrjú kvöld að lesa fyrstu kaflana en svo small eitthvað og ég fór í gang. Þetta var ágætlega spennandi, meira segja fyrir spennubókafíkil eins og mig sjálfa.
Endirinn er svona la, la, jú þetta gekk upp en mér fannst vanta fúttið! Hvaða fútt? Svona án þess að segja of mikið frá plottinu þá er lífið í rúst, algjörlega í rúst en svo bara klappa allir saman höndum og eru vinir. Nei, var ekki hægt að leggja aðeins meira á sig en það?
Grunaði ekki að þetta væri plat
Það sem fór í taugarnar á mér var hvernig bókin og höfundur voru kynnt til leiks. Tekið svaka viðtal sem ég las og fannst skrítið og þessi manneskja alveg stór undarleg (en mig grunaði samt ekki að þetta væri plat). Síðan kemur í ljós að þetta er bull, hún er ekki til (sem betur fer fyrir hana því hún virkaði ekki vel) og höfundur skrifar undir dulnefni. Mér fannst og finnst enn, þetta óendanlega kjánalegt.
Kjánahrollur
Allt í lagi að skrifa undir dulnefni en að búa til einhverja þykjustu persónu, eins konar nútíma kvenkyns Hemingway, ég fæ kjánahroll um allan skrokkinn. Þessi upplifun gerði lesturinn í upphafi dálítið skrítinn og ekki batnaði það við upptalningu á öllu sem aðalpersónan borðar eða borðar ekki. Allt eitthvað svo yfirborðslegt og mér fannst Lísa bara frekar leiðinleg. Alltaf grenjandi, berandi sig saman við hina og þessa og borða eitthvað sem er í tísku, slettandi nöfnum og veitingastöðum.
Ég keypti heldur ekki þessa svakalega hræðslu hennar um að vera ein eftir af vinkonunum og hún væri að renna út á tíma með barneignir. Auðvitað starfar hún líka við fjölmiðil, það gera allar ungar konur í krísu í kvennabókmenntun. Einum of klisjukennt fyrir mína parta. En kannski er það einmitt hugmyndin? Klisjukennd saga um nútímakonu í krísu? Já maður spyr sig.
En svona að öðru leyti fannst mér þetta allt í lagi saga. Spennandi og aldrei leiðinleg þótt mér finnist endirinn heldur ræfilslegur.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.