Krákustelpan er fyrsta bókin í þríleiknum um Victoriu Bergman eftir Erik Axel Sund en það er rithöfundanafn sem félagarnir Jerker Eriksson og Håkan Axlander Sundquist hafa tekið sér.
Krákustelpan fjallar um sálfræðinginn Sofia Zetterlund sem er með tvo skjólstæðinga sem báðir þjást af persónuleikaröskun. Þetta eru þau Victoria Bergman og Samuel Bai barnahermaður frá Sierra Leone. Í miðborg Stokkhólms finnst lík af óþekktum ungum dreng sem hefur mátt þola miklar misþyrmingar. Lögreglukonan Jeanette Kihlberg stjórnar leitinni að morðingjanum og snýr hún sér til Sofia Zetterlund í leit að aðstoð við að skilja morðingjann.
Þetta er sálfræðiþryllir af bestu gerð. Hvað eftir annað var ég viss um að nú væri ég búin að fatta plottið en var farin að naga á mér handleggina af spennu undir lok bókarinnar. Þetta er grimm saga um misnotkun á börnum og afburða grimmlynt fullorðið fólk.
Þetta er virkilega óhugnanleg bók og allt öðru vísi en flestar bækur sem ég hef lesið. Ég veit ekki hvers vegna hún er svona óhugnanleg, kannski er það vegna þess að verið er að misþyrma börnum og ekki af einum sálsjúkum manni heldur virðast vera samtök manna sem stunda það sér til skemmtunar.
Alltaf þegar lesandinn heldur að nú sé þetta komið, nú sé ekki hægt ofbjóða huga manns meira þá skellur eitthvað óvænt inn sem ekki var séð fyrir og endirinn kom mér gjörsamlega á óvart.
Kápan fannst mér skrítin og alls ekki í takt við efni bókarinnar en það kemur í ljós í bókinni, hvers vegna þessi kápa er mikilvæg. Ég er samt nokkuð viss um að margir hafa misst af þessari spennubók út af kápunni, hún bendir til þess að um sé að ræða sakleysislega sveitasögu sem þetta er alls ekki.
Þetta er svona bók sem maður verður að tala um þegar hún er búin. Hugurinn er svo uppfullur af óhugnaði, spennu og furðu yfir hvernig hægt er að spila úr söguþræðinum.
Þetta er ekki bók fyrir viðkvæma og ég hugsa að mörgum þyki þetta skrítin saga en mér fannst hún frábær og ég gef henni hæstu einkunn, fimm stjörnur.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.