Krakkaskrattar er eftir danska höfundinn Anne-Cathrine Riebnitzsky og þetta er bók sem kom mér á óvart. Einhvern veginn átti ég von á allt öðru en þarna kemur fram.
Lisa er í danska hernum í Afganistan ásamt Ivan bróður sínum. Hún fær símtal frá móður sinni um að Marie, litla systirin með miklu hæfileikana, hafi reynt að fremja sjálfsmorð og liggi nú við dauðans dyr. Lisa fer heim og grandskoðar líf sitt og systkina sinna með geðlækninum til að reyna að hjálpa Marie.
Móðirin er geðsjúk, faðirinn ofbeldisfullur, börnin fjögur og sár fátækt.
Hver lýgur að hverjum? Er það móðirin sem segir að faðirinn sé geðveikur og biður börnin að hjálpa sér gegn honum. Eða er það faðirinn sem alltaf er með hendi á lofti eða belti til siða börnin til og segir móðurina geðsjúka?
Börnin standa saman
Sárasta minningin er þegar litli bróðirinn er laminn með belti og móðirin heldur honum svo faðirinn eigi auðveldara með að ljúka verkinu en enginn utanaðkomandi verður var við neitt. Börnin standa saman og reyna að hjálpast að, elstu börnin tvö heilsast með setningunni, “hvernig var æskan þín” og gantast með að líf þeirra hafi líkst vígstöðvum í stríði.
Mér fannst dálítið ruglingslegt á tímabili, við hvern Lisa er að tala? Hún talar við geðlækninn en á sama tíma við lækni sem er henni samferða í flugi frá Afganistan. Lækni sem hún hefur áhuga á. En svo ákvað ég bara að láta þetta ekkert vera að pirra mig og hélt ótrauð áfram við lesturinn.
Skrítið að aðeins eitt reyndi að fremja sjálfsmorð
Þetta er ljót saga um ömurleg æskuár systkinanna og ekki virðist drengurinn á næsta bæ hafa haft það nokkuð betra en hann er laminn af sínum föður í hvert skipti sem Ivan kemur og leikur við hann. Þetta er einhvern veginn svo ömurlegt eitthvað. Þetta eru litlir krakkar, ekki krakkaskrattar, heldur bara venjulegir krakkar sem þrá ást og umhyggju.
Trúa móður sinni er hún segir hverju og einu þeirra að það barnið sé uppáhaldið sitt og ef hún þyrfti að fara þá myndi hún taka það barn með sér. Öll trúa þau þessu en í uppgjöri kemur í ljós að þau voru öll á sama báti. Lisa er bara fimm ára þegar móðirin spyr hvort hún eigi ekki að sækja um skilnað, barnið verður hrætt og segir nei og kennir sér síðan um það alla ævi að það hafi verið henni að kenna að móðirin neyddist til að vera áfram í sambandi við ofbeldimanninn föður þeirra.
Aðstæður sem ekkert barn ætti að vera sett í. Líkamlegt ofbeldi föður og andlegt ofbeldi móður. Skrítið að það var bara eitt af fjórum börnum sem reyndi sjálfsmorð! Ég gef henni fjórar stjörnur.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.