Korter er nýútkomin bók Sólveigar Jónsdóttur, starfandi blaðamanns hjá Nýju Lífi
Bókin er vel uppsett og skrifuð. Hún rekur sögur fjögurra kvenna rétt undir þrítugu sem glíma við lífið á þann hátt einan sem ungfrúm landsins er lagið. Karlmenn, kynlíf og þessháttar skemmtanir lita frásögnina og gefst lesandanum kostur á að svala forvitni sinni ef vill með því að hlaupa yfir kafla, en bókin er sett upp á þann hátt að hver persóna fær aðalhlutverkið í kafla í senn.
Sögupersónurnar, Silja, Hervör, Mía og Karen eru ólíkar að upplagi en eiga það sameiginlegt að kljást svolítið við tilveruna, oft með ófyrirsjáanlegum uppákomum og tekst höfundi að flétta trúverðugar aðstæður sem flestir ættu að geta kannast við.
Hervör, nýútskrifaður hagfræðingur nýtur fyrrum kennara síns að næturlagi en sörverar almenningi á kaffihúsinu Korter á daginn með vel skóuðum perluvini sínum honum Georg. Veit samt ekki alveg hvaðan á sig stendur veðrið þegar herra hagfræðiprófessor skiptir henni út fyrir skinkulegan einkaþjálfara, nokkuð eldri…
Einn morguninn rekst Mía inn á kaffihúsið með sálina í flækju og tekst að taka sjálfa sig enn frekar á taugum með því að sulla kaffinu sínu yfir nánasta umhverfi. Alsett marblettum eftir flutninga vekur hún athygli Hervarar (sem kemur til bjargar með nýtt kaffi) en Mía stendur í ströngu við að vinna úr erfiðum sambandsslitum.
Svo erfiðum að hún var nýkomin af slysavarðsstofunni þar sem Silja, unglæknir, hafði saumað saman á henni ennið eftir gleðskap næturinnar. Eftir langa vakt röltir Silja heimleiðis til þess eins að standa augliti til auglitis við eitt af næturgömnum eiginmanns síns. „Fyrirgefðu“ hvíslar þessi drottning næturinnar og eftir stendur Silja sem steinrunnin.
Næturdrottingin Karen skakklappast heim í hálkunni full samviskubits og má hafa sig alla við að mæta í þrítugsafmæli þá um kvöldið. Þar er Þráinn. Hann á systur sem kölluð er Billa…
Í lok bókar virðast þær stöllur hver um sig hafa greitt að nokkru úr sálarflækjum sínum, ný ævintýri blasa við og bjartara er yfir. Ævintýrin draga þó oft dilk á eftir sér – og þá um að gera að bíða spenntur eftir framhaldinu.
Sigrún er grafískur hönnuður að mennt en hefur eytt sl.tveimur árum í húsfreyjustörf og barneignir. Henni líður best með bækur í kringum sig, þá helst við arineld eða ofaní baðkeri. Ferðalög og munaður af ýmsu tagi eru ofarlega á óskalistanum auk þess sem hún hefur yndi af að gera eitthvað af sér. Sigrún er naut.