Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur er ævintýrabók sem óhætt er að mæla með.
Þetta er fyrsta skáldsaga Ragnhildar og í apríl fékk hún barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sem besta frumsamda barnabókin.
Koparborgin fjallar um Pietro, tólf ára gamlan dreng sem er búinn að miss alla fjölskyldu sína úr plágunni. Fjölskylda hans tilheyrir bátafólkinu sem eru ekki eiginlegir þegnar Koparborgarinnar en plágan kemur fyrst upp þar og til þess að koma í veg fyrir að plágan berist til borgarinn kveikja borgarbúar í bátaþorpinu. Pietro kemst lífs af, við illan leik og leitar hann á náðir Víxlarahússins en þar hafa einungis búið börn í meira en þrjár aldir.
Við sextán ára aldur verða þau að yfirgefa húsið en fram að því vinna þau saman að því að lifa af í borginni stóru. Þegar friðhelgi hússins er rofin fer Pietro ásamt fleiri börnum í hættulega för inn í leyndardóma háborgarinnar sem gnæfir yfir borginni. Þangað hefur enginn fengið að koma í margar aldir aðrir en aðalsfólk og þjónustufólk þeirra.
Hetja af gamla skólanum
Þetta er bráðskemmtileg bók og ekki versnar það að hún skuli vera íslensk og skrifuð af ungum höfundi. Söguþráðurinn er í senn ævintýralegur og ótrúlegur eins og við á í góðum ævintýrabókum. Pietro er hetja af gamla skólanum, hræddur við margt en reynir samt að standa sína plikt.
Amadeo, litli stjórnandinn er sá eini sem er hálf ótrúlegur en halló, þetta er ævintýrasaga og í þeim getur allt gerst. Laetitía litla furstastúlkan sem þjáist af alls kyns kvillum sem koma af skyldleikagiftingum í gegnum margar aldir. Soffía sem er klár og dugleg en er með þrælslundina innprentaða. Persónusköpunin er fín og ég gat alveg lifað mig inn í söguna.
Þarna er allt sem prýðir góð ævintýri, galdrar og spenna, vinátta og samheldni. Hetjur sem í upphafi eru ekkert hetjulegar, Skúrkar og illmenni og allt þar á milli.
Unglingabók fyrir alla
Koparborgin er barna- og unglingabók fyrir alla, konur og kalla. Bæði frumleg og skemmtileg og ég er að hugsa um að lesa hana með dótturinni líka. Koma henni á bragðið með ævintýrabækur. Það er fátt betra en ævintýrabók sem gengur upp og mér finnst þessi gera það.
Björt útgáfa gefur bókina út í lok ársins 2015 og hún er 314 síður.
Niðurstaða: Koparborgin er skemmtileg unglingabók sem er fyrir alla sem elska góðar ævintýrasögur. Íslensk saga sem gerist í ævintýralandi sem ekki er til og það gengur upp. Ég vona að Ragnhildur haldi áfram að skrifa því ég get alveg hugsað mér að lesa meira eftir hana.
Fjórar og hálf stjarna [usr 4,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.