“Jæja… fínt að lesa eina svona ástarvellu sjálfsagt” hugsaði ég og ranghvolfdi augunum. Kápa bókarinnar sem ég hafði tekið að mér að lesa var semsé rauð með smákökuhjörtum framaná.
En það er nú svo – eins og með annað í lífinu – maður á aldrei að dæma bókina eftir kápunni. “Never judge a book by it‘s cover” eins og amerískt fólk segir. Konan sem elskaði hann áður kom mér nefninlega alveg að óvörum. Þetta er ekki ástarvella heldur sakamálasaga af fínustu gerð og persónusköpunin eftirtektarverð.
Við kynnumst Libby sem fellur fyrir Jack sem á sér fortíð.
Þetta er ást við fyrstu sýn, að því virðist, Jack sjarmerar Libby upp úr skónum og leyfir henni að kynnast manninum á bak við hrokafulla framkomu sína… sem er ekkert annað en gríma vegna dauða fyrri konu sinnar. Mjög ástarvellulegt semsagt. Þau gifta sig og eftir tveggja ára hjónaband lenda þau í alvarlegu slysi þar sem Jack sleppur með minniháttar skrámur en Libby er nær dauða en lífi.
Þá kemur til sögunnar Morgan lögreglufulltrúi, sem stýrði rannsókn málsins þegar Eva, fyrri kona Jack‘s lést – og sú er viss um að Jack hafi myrt hana.
Libby, sem vissi af andláti Evu hafði ekki hugmynd um að dauða hennar hefði borið að á óeðlilegan hátt og heldur ekki að Jack hefði legið undir sterkum grun. Morgan þessi tekur nú til við að grilla Libby um atburði slyssins og vekur hana til umhugsunnar um heilindi manns síns.
Libby uppgötvar svo dagbækur Evu, lifir sig inn í þær og leyfir þráhyggju og ótta að taka völdin. Að lokum fer hún að efast um þær styrku stoðir sem hjónaband á að byggjast á, ást Jack‘s og eigin geðheilsu.
Konan sem hann elskaði áður eftir Dorothy Koomson kemur skemmtilega á óvart og heldur lesendum í óvissu alveg þar til í bókarlok! Flott sumarlesning…
Hér er heimasíða rithöfundarins en það er hún Dorthy Koomson…
Sigrún er grafískur hönnuður að mennt en hefur eytt sl.tveimur árum í húsfreyjustörf og barneignir. Henni líður best með bækur í kringum sig, þá helst við arineld eða ofaní baðkeri. Ferðalög og munaður af ýmsu tagi eru ofarlega á óskalistanum auk þess sem hún hefur yndi af að gera eitthvað af sér. Sigrún er naut.