Bækur: Konan í blokkinni – Einkaspæjari fer á stjá

Bækur: Konan í blokkinni – Einkaspæjari fer á stjá

joninaleosdottirKonan í blokkinni heitir Edda. Hún er nýhætt að vinna og hundleiðist að hafa ekkert að gera.

Edda á tvö börn og tvö barnabörn en þau eiga nóg með sig. Hún er eftirtektarsöm og þegar sonur gamallar pennavinkonu úr bernskunni hefur samband við hana og biður hana að skyggast eftir mömmu sinni þá getur hún ekki annað en orðið við bóninni. Hún veit ekkert hvernig konan lítur út en lætur það nú ekki stöðva sig. Meðan hún leitar að gömlu pennavinkonu sinni á hótelum Reykjavíkur er nágrannakona hennar í mikilli hættu og fátt virðist geta komið henni til bjargar.

Þetta er þræl skemmtileg saga með fullt af tvistum og óvæntu útspili. Hún er dálítið fyrirsjáanleg á köflum en það skemmdi samt ekki neitt, alla vega hélt hún mér vakandi fram eftir nóttu því ég varð að vita hvernig þetta endaði (og nei ég kíki aldrei á endinn fyrst).

Edda er forvitin og full af lífi. Henni til aðstoðar (allir góðir einkaspæjarar verða að eiga sér dyggan aðstoðarmann) erKonan_i_Blokkinni tengdasonur hennar sem er þjónn á Hótel Sögu. Hann er líflegur og kátur og dáist að krafti tengdamóðurinnar þó hann hræðist um leið hvað börnin hennar segi ef þau frétta að hann sé að hjálpa henni við rannsóknirnar, ýta undir að hún sé að skipta sér að einhverju sem henni kemur ekki við. Konur á hennar aldri “eiga” að vera rólegar og settlegar en það er ekki alveg Eddu stíll.

Börnin hennar eru fjarlæg og þá sérstaklega sonurinn en það gæti breyst ef það koma fleiri bækur um Eddu hina forvitnu.

Sagan gerist á nokkrum dögum í Reykjavík rétt fyrir jólin. Snjór og myrkur hjálpa því til að skapa spennuandrúmsloft og ástand nágrannakonunnar er mjög spennandi, hvað hefur eiginlega gerst og hvar er hún niðurkomin?

Mér fannst skemmtilegt að lesa svona bók úr okkar samtíma. Íslenska bók um konuna í næstu íbúð sem hættir ekki fyrr en hún veit hvað er að gerast. Þarna er glæpur eða kannski glæpir, forboðin ást hlýja og skemmtun. Hvað meira getur maður beðið um? Fjórar stjörnur.

4 out of 5 stars (4 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest