Kaffi og rán er eftir Chatarina Ingelman-Sundberg, sænskan rithöfund. Bókin fjallar um fimm vini á elliheimili sem eru búin að fá alveg upp í kok af nísku stjórnendanna.
Þau höfðu séð sig í anda eiga áhyggjulaust ævikvöld en reyndin er sú að þau fá sjaldan að fara út, fá ömurlegan mat og eru beðin um að hafa ekki mjög hátt til að trufla engan.
Märtha Anderson sér þátt í sjónvarpinu frá fangelsi og sér þar að fangarnir hafa miklu betri aðbúnað heldur en heimilisfólkið á Demantinum. Hún fær því frábæra hugmynd, að fremja glæp og fara í fangelsi en hún vill ekki fara ein heldur hafa vini sína fjóra með sér.
Þau skipuleggja glæpinn mikla, búa sig undir það líkamlega og skella sér á verkið. En það er þetta með lögmál Murphys sem segir að ef eitthvað geti farið illa þá muni það fara illa. Í gang fer atburðarás sem þau hafa litla sem enga stjórn á.
Bókin er með vissum ólíkindum en samt ekki. Það væri alveg séns á að svonalagað gæti gerst og sumt sem fer úrskeiðis er svo mikil óheppni að það hálfa væri nóg. Þetta er ágætis bók og ég glotti reglulega út í annað.
Það er líka ágætis tilbreyting að lesa um fólk á efri árum en ekki alltaf ungt og fallegt fólk sem getur allt.
Þetta er fólk sem hefur lifað sitt fegursta en á samt fullt eftir og vill fá njóta þess eins og það getur.
Hún fær þrjár og hálfa stjörnu.
[usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.