Iréne eftir franska höfundinn Pierre Lemaitre er fyrsta bókin í þríleiknum um lögregluforingjann Camille Verhæven.
Fyrir rúmu ári var bók nr. tvö, Alex, þýdd á íslensku og er hún með betri spennusögum sem ég hef lesið lengi. Það var því með þó nokkurri tilhlökkun sem ég hóf lesturinn á Iréne.
Í þessari bók er raðmorðingi sem virðist vera að endurskapa sígildar glæpasögur. Verhæven og liði hans gengur illa að finna út úr málunum og á endanum fær morðinginn augastað á Verhæven sjálfum og barnshafandi eiginkonu hans.
Minnkar spennuna að byrja á bók tvö í þríleik
Það er ákveðinn galli við að lesa bækur í þríleik í rangri röð. Hér t.d. veit lesandinn sem lesið hefur Alex, hvernig endalokin verða og það dregur óneitanlega úr spennunni. Ég skil ekki alveg af hverju af hverju bækur eru ekki þýddar í réttri röð. Þegar ég fór að skoða á netinu þá sá ég að þetta hefur líka verið gert þegar enska þýðingin var gerð, þar er einnig byrjað á Alex. Ég skil ekki alveg af hverju þessi leið hefur verið valin.
Öll bókin kemur á óvart
Þessi bók er ekki alveg eins góð að mínu mati og Alex, en hún er góð samt. Í byrjun fannst mér hún ruglingsleg og ég þurfti að fara fram og til baka í textanum til að koma mér af stað. Eins og í Alex þá kemur endirinn manni (og raunar bókin öll) mjög á óvart. Ég fattaði ekki meðan á lestrinum stóð þegar lauslega var gefið í skyn að eitthvað væri kannski öðru vísi en það átti að vera samkvæmt textanum. Þegar ég blaðaði aftur yfir textann þá sá ég að stundum var gefið í skyn eitthvað sem glöggur lesandi gæti áttað sig á. Ég er greinilega ekki þessi glöggi lesandi.
Grafískar lýsingar
Það sem hins vegar gæti ýtt lesendum frá þessari bók eru mjög grafískar lýsingar á morðunum. Svo grafískar að ég gat ekki lesið sumar þeirra. Virkilega ógeðfelldar lýsingar og alveg spurning hvort svona þurfi að vera til staðar í sögu til að gera hana betri?
Viðkvæmir lesendur eiga örugglega í erfiðleikum með þetta. Nú er ég ekki sérlega viðkvæm fyrir svona lýsingum en þarna var farið yfir mín mörk.
Þegar ég skrifa þetta er liðin ein vika frá því ég kláraði bókina. Ég er búin að hugsa mikið um hana og fletta í henni nokkrum sinnum síðan (hef þó alveg sleppt morðlýsingunum, ég skal alveg viðurkenna það). Hún sækir dálítið á mann þessi bók, kannski af því hún er skrifuð allt öðru vísi en flestar bækur sem nú eru hvað vinsælastar. Þetta er allt annar stíll heldur en sá skandinavíski og lýsingar á fólki finnast mér líka allt öðru vísi. Mér finnst þetta hressandi þó morðlýsingarnar hafi ekki gert neitt fyrir mig.
Þriðja bókin í bókaflokknum er Camille og hún er ekki komin út. Hún hefur af mörgum erlendum gagnrýnendum verið talin besta bókin af þessum þremur þannig að það er hægt að láta sig hlakka til að hún komi út.
IRENE er 405 blaðsíður og kom út árið 2016 hjá JPV.
Niðurstaða: Spennandi og öðruvísi glæpasaga. Alls ekki fyrir viðkvæma því lýsingar á morðum eru mjög sláandi og berorðar (það er ekkert skilið eftir fyrir ímyndunaraflið). Ótrúlega skemmtilegur höfundur.
Fjórar stjörnur því hún nær Alex ekki alveg og svo trufluðu mig dálítið þessar ljótu lýsingar.
Fjórar stjörnur [usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.