Húsið við hafið eftir Nora Roberts er ekta sumarsmellur. Það er ást, spenna, rómantík, smá kynlíf og leyndardómur. Hvað meira er hægt að biðja um liggjandi í leti í fríinu sínu?
Lögfræðingurinn Eli Landon er á barmi örvæntingar eftir að eiginkona hans var drepin en þau stóðu í skilnaði.
Hann var í fyrstu grunaður um morðið en sannað þótti að hann gæti ekki hafa gert það. Hann er að niðurlotum kominn og leitar skjóls á ættarsetrinu en amma hans hafði slasast og var því í burtu.
Hann kynnist helstu hjálparhellu hennar og þá fara hlutirnir að gerast. Sem sagt ljúf saga með smá spennu, krúttlegum örþreyttum lögfræðingi og yfirmáta, já ég segi yfirmáta, almennilegum jógakennara.
Hún er svo almennileg að hún fer yfir öll mörk. Ég hefði að öllum líkindum verið búin að berja hana af pirringi en Eli er ekki eins fúll og ég og lætur sig hafa það þó hann sé stundum forviða yfir hjálpseminni sem á sér engin takmörk.
Burtséð frá þessu þá er þetta ágætis saga til að lesa í letikasti á sundlaugarbarminum. Gleymist að vísu fljótt aftur en hey, þá er bara hægt að lesa hana aftur.
Gef henni tvær og hálfa stjörnu.
[usr 2,5]
Nora Roberts
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.