Það þarf varla að kynna bókina Hungurleikarnir en fyrir stuttu sáum við söguna á hvíta tjaldinu þar sem myndin sló algjörlega í gegn eins og bókin gerði.
Forlagið var að gefa út Eldar Kviknar sem er önnur bókin í þríleiknum og sló hún vægast sagt í gegn á heimilinu um helgina þegar hún var lesin upp til agna.
Við fáum að fylgjast með söguhetjunum úr fyrri bókinni þar sem Katniss flytur inn í Sigurþorpið eftir að hafa unnið Hungurleikana með eftirminnilegum hætti og því fylgir að hún þarf aldrei framar að óttast hungur og öðlast Katniss ákveðið frelsi.
En lífið er ekki eins og Katniss hafði hugsað sér það eftir að hún vann leikana. Gale er kuldalegur, Peeta snýr við henni baki og Panem titrar af ólgu. Katniss og Peeta eru send í sigurvegaraferð í umdæmin tólf sem við þekkjum úr fyrri bókinni og verða þau að halda niður þeirri uppreisn sem liggur í loftinu, annars er miklu meira í húfi, hvort sem þeim líkar það eða ekki.
Þegar ég var að lesa bókina leiddi ég hugann að því hvernig hún myndi þróast, hvað Suzanne Collins myndi leiða söguhetjurnar út í til að halda lesandanum á innöndunni allan tímann eins og hún gerði í fyrri bókinni sinni og get ég fullyrt að hún kom mér sannarlega á óvart og ég andaði varla eftir tæplega miðja bók.
Ég er að lesa Hungurleikana – Eldar kvikna. Er á síðustu blaðsíðunum og er að fríka út. Speeeennnannndiiii!!!!
Svona var statusinn minn þegar ég var trufluð á fésbókinni og 30 bls. voru eftir.
Ef þú varst hrifin af fyrstu bókinni í þríleiknum Hungurleikarnir þá er bók númer tvö Eldar Kviknar skyldulesning!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.