Hunangsgildran heitir spennusaga eftir norska rithöfundinn Unni Lindell.
Í upphafi sögunnar er ung kona frá Litháen drepin í iðnaðarhverfi og á svipuðum tíma hverfur sjö ára drengur sporlaust. Lögregluforinginn Cato Isaksen stýrir rannsókninni að hvarfi stúlkunnar og fljótlega virðast þessi tvö mál tengjast.
Hvernig tengjast þessi tvö?
Þetta er spennusaga númer sex í seríunni um Cato Isaksen en sagan inniheldur fullt af torkennilegum og grunsamlegum persónum. Á tímabili fannst mér þær eiginlega vera orðnar of margar. Það er gömul kona sem síðust sá litla drenginn á lífi, það er kærasti stúlkunnar sem var myrt og jafnvel bróðir hans og móðir. Vinnuveitandi stúlkunnar og margir fleiri. En hver vill litla drengnum illt? Hvernig tengjast þessi tvö sem virðast aldrei hafa hist?
Er þetta klisja?
Cato Isaksen er flinkur lögregluforingi en tuðið í honum við samstarfsmanninn nýja, Marian Dahle er frekar þreytandi. Skemmdi dálítið fyrir annars ágætri sögu. Svona virkar á mig eins og það verði að vera einhver togstreita milli einhverra til að bókin gangi upp. En það þarf ekki, þetta er klisja og bókin stæði alveg eins vel og jafnvel betur ef aðeins hefði verið dregið úr þessu.
Annað sem ég átti aðeins erfitt með var allur þessi fjöldi af persónum. Ég var farin að rugla öllum þessum konum saman og þurfti alltaf að vera að stoppa og rifja upp hver var hver. Það dregur aðeins úr spennunni hjá mér þegar svona gerist.
Fyrir utan þessi tvö neikvæðu atriði þá rennur sagan ágætlega og mér fannst hún spennandi.
Bókin var þýdd og gefin út hjá Uglu árið 2016 og er 330 blaðsíður. Gerðir hafa verið sjónvarpsþættir upp úr bókunum um Cato Isaksen sem náðu miklum vinsældum í Noregi.
Niðurstaða: Fín spennusaga þó persónuleg málefni lögreglumannanna hafi verið óspennandi og tafið fyrir framgangi sögunnar. Þrjár og hálf stjarna.
Þrjár og hálf [usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.