Þegar haustvindarnir fara þjóta um stræti, borg og sveitir fara prjónakonur og karlar að hugsa til jólanna og snemma í september fara margir saumaklúbbar af stað þar sem undirbúningur fyrir jólagjafaframleiðsluna hefst.
Húfuprjón er eitt af því sem hefur verið vinsælt undanfarin misseri en eins og margir foreldrar kannast við geta húfur týnst ansi oft í amstri dagsins, á leið í skólann, í tómstundir og fleira en fyrir utan að það er líka mjög gaman að eiga húfur í allskonar litum, stíl og stærðum!
Fyrir skemmstu gaf Forlagið út bókina Húfuprjón en bókin er skrifuð af Guðrúnu S. Magnúsdóttur þar sem hún deilir 57 uppskriftum allt frá ungbarnahúfum upp í fullorðins húfur. Ýmis tækni er kennt, prjónamynstur sýnd, prjónfesta og fleira skýrt út á vel framsettan hátt.
Þessi bók er virkilega góð sem grunnbók. Hér eru uppskriftir að t.d. “djöflahúfu”, lambhúshettum, hefðbundnum húfum, kennt er að gera dúska, frágangur að ofan er mismunandi og þar sem úrvalið af mynstrum er mismunandi ættu þau sem hafa gaman af að prófa sig áfram að hafa gagn af þessari bók því hægt er að láta ímyndunaraflið leika lausum hala.
Svei mér þá ef það verða ekki nokkrar húfur í jólapakkanum hjá mér í ár, hver veit 🙂
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.