Lars Kepler er höfundarnafn sænsku hjónanna Alexandra og Alexander Ahndoril.
Hrellirinn er fimmta bók þeirra í spennusagnaröð um lögreglumanninn Joona Linna. Það er ekki endilega nauðsynlegt að lesa bækurnar eftir röð en ég hvet þó eindregið til þess þar sem það hefur ýmislegt gerst í ævi Joona sem gerir hann eins og hann er í þessari bók.
Í upphafi bókarinnar fær sænska lögreglan sent myndskeið af konu að klæða sig og er myndskeiðið tekin inn um gluggann hjá henni. Daginn eftir finnst hún myrt.
Síðan berst önnur upptaka af konu tekin á sama hátt og sagan endurtekur sig.
Í hennar tilfelli finnur eiginmaðurinn hana og hann er í svo miklu losti að eina leiðin er að dáleiða hann til að reyna að sjá hvort hann veit eitthvað meira og til þess er fenginn geðlæknirinn Erik Maria Bark sem sérhæfir sig í áfallafræði og geðlækningum vegna afleiðinga hamfara. Er þetta raðmorðingi eða er eitthvað annað í gangi?
Þetta er spennusaga af bestu gerð. Í sumum köflunum varð ég að berja niður löngunina að til fletta aftast og lesa hvort viðkomandi slyppi ekki.
Drepur hann konuna eða sleppur hún? Kannski er þetta árifaríkara vegna þess að hugmyndin um eltihrelli sem er fyrir utan gluggann hjá manni og fylgist með persónulegum athöfnum og jafnvel tekur þau upp á myndband er mjög skelfileg.
Ég fæ hroll við tilhugsunina, maður vill fá að hafa sitt persónulega líf heima hjá sér í friði. Í stórborgum getur auðvitað allt gerst, allskonar fólk á ferli.
Kaflarnir eru missterkir og spennandi. Sumir eru bara svona la, la og eru svona til að teygja lopann en ég hefði samt ekki viljað sleppa þeim neitt. Mér finnst gaman að lesa um hinn finnska Joona Linna. Hann er hæglátur og lætur fátt stressa sig og um leið er hann heildstæðari en margir aðrir löggukarekterar.
Hann t.d. misnotar ekki nein vímuefni, hvorki áfengi eða pillur sem er undarlegt fyrir skáldaðann lögreglumann en um leið ótrúlega hressandi. Hann ber utan á sér sorgina og mann langar til að hugga hann og segja honum að þetta verði örugglega allt í lagi.
Ég mæli með þeim Kepler hjónum fyrir þá sem elska spennusögur og endilega lesa fyrri bækurnar fyrst það er skemmtilegra fyrir framhaldið. Hér er hægt að lesa smábrot úr bókinni Hrellirinn og hér er að finna dóm um fjórðu bókina, Sandmaðurinn.
Ég gef þessari bók fjórar stjörnur og vona að það komi fleiri bækur um Joona Linna.
[usr 4.5 text=”true” tooltip=”true”]Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.