Fyrstu fimm mínúturnar sem ég las bókina Hrafnsauga hugsaði ég með mér “ohh ég er ekki viss um að ég nenni að lesa þessa”. En eitthvað gerðist því næst þegar ég leit á blaðsíðuna sem ég var á var hún númer 122!
Ég gjörsamlega festist í bókinni og datt kylliflöt ofan í hana.
Þriggja heima saga Hrafnsauga er ævintýrabók með hefðbundnu sniði, við kynnumst Ragnari, Breka og Sirju sem eru á flótta undan vættum og vonda kallinum og lendir hópurinn í ýmiskonar ævintýrum sem vekja áhuga og halda manni sannarega við efnið.
Það er alveg á hreinu að þetta er fyrsta bókin í bókaseríu og hlakka ég til að lesa næstu ævintrýri sem hópurinn lendir í þar sem mörgum spurningum er ekki alveg svarað í fyrstu bókinni.
Bókin vann Íslensku barnabókaverðlaunin 2012 og er nú í fimmta sæti á metsölulista barnabóka hjá Forlaginu.
Ef þessi bók læðist í pakkann hjá barninu þínu mæli ég með að þú nappir henni og færð að lesa hana næst á eftir unglingnum á heimilinu, því þetta er frábær ævintýrasaga!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.