Það voru margir sem grétu þöglum tárum þegar síðasta bókin um Kurt Wallander kom út í fyrra en þeir hinir sömu geta tekið gleði sína allavega eina kvöldstund því það er komin út ný bók um Wallander.
Í tímaröð er þessi bók þó nokkuð langt á undan bókinni sem síðast kom út og í reynd er langt síðan Mankell gaf hana út en það var í Hollandi. Þegar tekin var ákvörðun um búa til skrá yfir allar bækurnar um Wallander ákvað höfundurinn að tími væri til að gefa þessa „hollensku“ bók út aftur.
Þetta er smásaga en engu síður er þetta sönn Wallander saga sem svíkur ekki. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að Wallander fer að skoða hús og í garðinum hrasar hann um eitthvað sem kemur svo í ljós að er hönd á konu. Þarna kemur í ljós gröf þar sem viðkomandi hefur legið hulinn öllum í meira en 50 ár. Wallander fer ásamt lögregluliðinu í Ystad að reyna að grafa upp hvað þarna hefur gerst og er það erfiðleikum bundið þar sem flestir sem uppi voru á þessum tíma eru annað hvort látnir eða svo ellihrumir að ekki er hægt að ná sambandi við þá.
Wallander aðdáendur eins og ég geta ekki annað en tekið þessari bók fagnandi þó hún sé auðvitað alltof stutt. En hún hefur samt allt það sem prýðir góða bók; fín flétta, Wallander í ham við að leysa málið og um leið í tilvistarkreppu með sjálfan sig. Gerist bara ekki betra. Hvað er betra en að eyða kvöldstund með Kurt Wallander í tilvistarkreppu með myrt fólk í öllum hornum?
Og svona í lokin þá er bónus með bókinni í formi eftirmála eftir Henning Mankell. Þar segir hann frá Kurt Wallander og hvernig hann varð til og hvernig hann þróaðist allt þar til í lokabókinni. Alltaf gaman að lesa frá höfundum sjálfum hvernig þeir hugsa persónur sínar og af hverju hlutinir gerast eins og þeir gerast.
Þetta er smásaga eins og þær gerast bestar og ég kveð Wallander með smá eftirsjá en er þó sáttari við endalok hans núna heldur en eftir síðustu bókina.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.