Eiríkur Örn Norðdahl vinur minn! Ég hef að vísu aldrei hitt hann og hann veit ekki að ég er til, en hann er samt vinur minn. Mér hugnast nefnilega hvernig hann hugsar.
Hann hugsar út fyrir boxið, langt út fyrir boxið og mér finnst skemmtilegt að lesa hvað hann kann mikið að orðum og hvernig hann raðar þeim saman. Hann er ekkert að spá í að falla í kramið. Hann er að koma frá sér tilfinningum og hann gerir það vel.
Hnefi eða vitstola orð er ljóðabók. Þetta eru ekki svona lítil og sæt, rímuð ljóð sem maður skilur um leið og maður les og gleymir jafnhratt. Nei, þetta eru ljóð sem eru full af orðum sem slást við hvert annað og slást um athyglina hjá manni.
Eiríkur segir sjálfur að það eigi að lesa bókina alla í einu, þ.e.a.s. sem heildstæða bók, ekki kippa út einu og einu ljóði. Ég gerði hvoru tveggja. Fyrst las ég alla bókina – öll ljóðin í réttri röð. Svo las ég öll ljóðin aftur en núna aftur á bak og svo greip ég niður í bókina og las af handahófi eitt og eitt ljóð.
Mér fannst það allt virka og orðin eru frábær, t.d. „grenjynjur þrálætis, fella tré, með sköflungum“. Þetta er ótrúlega flott.
Þetta er skemmtileg bók. Lítil og svolítið austantjaldsleg í útliti og ljóðin eru út um allt. Þau eru nefnilega út um allt á blaðsíðunum, stundum í einu horninu og stundum í miðjunni:
Nafngengi
Lýsingargengi nútíðar
Lýsingargengi þátíðar
Viðtengingargengi
Framsögugengi
Boðgengi
Og gengið er 174,30 ISK. Gamli bankamaðurinn í mér fór heljarstökk af fögnuði yfir þessum samtengingum gengis.
Þetta eru ljóð með „vitstola orðum“ eiginlega eins og hnefahögg á köflum.
Þetta eru setningar sem maður hugsar, „Já, einmitt það sem ég var að hugsa en kunni ekki að segja“. Og endirinn kemur ekki á óvart fyrir þann sem búinn er að sitja í hruninu og bíða eftir að eitthvað ófyrirséð fari að gerast. Gengið komið í 172,76 ISK.
Ef þú hefur gaman af ljóðum sem ríma þá hefur þú ekkert gaman að þessari bók. En ef þú hefur gaman af ljóðum með sögu sem ekki liggur í augum uppi og þarf að hugsa aðeins þá á áttu eftir að elska þessa bók.
Þetta er náttborðsbók, ekki bók sem fer bara upp í hillu og rykfellur þar. „Hnefi eða vitstola orð“ meira segja titillinn segir allt sem segja þarf!
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.