Hljóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur ber nafn með rentu. Þetta er nöturleg lýsing á lífi þeirra er minna máttu sín á síðustu öld.
Björg er ekki mjög gömul en hún bjó þó í Höfðaborginni í Reykjavík í húsum sem löngu er búið að rífa. Þarna bjó fólk sem var ekki með mikið á milli handanna og margir áttu í erfiðleikum vegna drykkjuskapar.
Ég verð að viðurkenna fáfræði mína en ég vissi ekki fyrr en ég las þessa bók að þetta hverfi hefði verið til. Ég vissi af Braggahverfinu og ef Höfðaborg hefur einhvern tíma borið á góma þar sem ég var nálægt þá hugsa ég að ég hafi slegið þessu tvennu saman.
Það eru hrikalegar lýsingarnar hennar Bjargar. Lýsingar á erfiðum heimilisaðstæðum, drykkju, og fátækt. Lýsingar á því hvernig skólayfirvöld komu fram við börnin sem þarna bjuggu en þeim var sjálfkrafa hent í tossabekk og eins og allir vissu: „Kvennaskólinn tekur ekki við nemendum úr Höfðaborginni“. Þetta var vítahringur, fátækt og eymd og fá tækifæri til að brjóta sig upp úr því nema með harðfylgni.
Síðan er það misnotkunin, allstaðar og út um allt. Allstaðar menn sem gripu litlar stúlkur og drengi og komu fram sínum vilja. Börnin þögðu og báru harm sinn í hljóði enda vissu þau að ekki þýddi að segja frá, því hver trúir barni úr Höfðaborginni, barni úr tossabekk með foreldra sem ekki voru miklir bógar?
Björg er góður penni. Hún er ekki að benda á neinn þó þeir sem til þekkja vita um hverja hún talar. Hún nefnir engin nöfn í bókinni. Hún talar um sjómanninn og móður sína, föður sinn og föðurbróður og kennarann illa en það eru engin nöfn nefnd.
Mér finnst nafnleysið styrkja þessa bók og þessa sögu, nógu hrikalegt er að lesa lýsingarnar án þess þó mann gruni um hvern er verið að tala.
Ég las bókina í einum rykk og gat ekki hætt þó ég reyndi. Stundum var ég með kökk í hálsinum en upp úr stendur að Björg er sigurvegari. Sigurvegari vegna þess að hún skrifar þessa fallegu og nöturlegu bók án þess að kenna neinum um. Sigurvegari vegna þess að hún stendur uppi tiltölulega heil þó sárin á sálinni séu mikil. Og sigurvegari vegna þess að þegar drengurinn hennar lendir í ljótu máli þá getur hann komið fram og sagt frá í stað þess að þegja og þjást eins og móðir hans og frænkur og fjöldinn allur af öðrum börnum.
Takk fyrir þessa bók Björg og þú færð fimm stjörnur frá mér.
[usr 5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.