Hljóðin í nóttinni heitir bók eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur en undirtitill bókarinnar, sem kom út snemma á þessu ári, er ‘minningarsaga’.
Í minningarsögu þessari leitast Björg við að gera upp eigin æsku sem var mjög lituð af ofbeldi hverskonar en hún ólst upp með trylltri móður sinni og drykkfelldum stjúpa á stað sem kallaður var Höfðaborg.
Þetta voru íbúðir á vegum borgarinnar og í raun algjört gettó því þau sem bjuggu í Höfðaborg mættu gríðarlegu einelti og fordómum hvort sem var af skólanum, kerfinu eða samfélaginu í heild.
Til dæmis mátti Björg, (sem var send í ‘tossabekk’ í skóla) snemma gleyma draumnum um að fara í Kvennó því… “Kvennaskólinn tekur ekki við nemendum úr Höfðaborginni”.
Minningar miðaldra íslendinga
Björg er ekki bara að segja sína eigin sögu með þessari bók því um leið segir hún sögu foreldra sinna og líka annara barna sem ólust upp við fátækt, drykkjuskap, ofbeldi og óreglu á Íslandi fyrir 30-5o árum.
Um leið vekur hún athygli á stöðu þessara barna sem urðu líka fyrir kynferðislegu ofbeldi, þá oftar en ekki af hálfu þeirra sem áttu að vernda þau, hlúa að og passa. Hún fékk hvergi hjálp og gat ekki stólað á neinn nema sjálfa sig í raunum sínum en þetta gerði hana bæði einmana og reiða.
Drykkfelld ungmenni í foreldrahlutverki
Það var aðallega tvennt sem vakti áhuga minn við lestur þessarar bókar. Fyrst og fremst er ég alltaf jafn hissa á því hvað lífið á Íslandi hefur breyst hratt og mikið á síðustu árum og Björgu tekst ágætlega upp að lýsa þessari tilveru í bókinni.
Til dæmis hefur drykkjumenningin (ef menningu skyldi kalla) tekið stakkaskiptum. Íslendingar drukku aðeins til að komast í algleymisástand hér áður fyrr og mörg börn þurftu að horfa upp á foreldra sína út úr heiminum af drykkju hverja einustu helgi, eða um leið og frí gafst frá vinnu.
Flestir urðu foreldrar löngu áður en það var tímabært og þetta voru því vinnusöm og skemmtanaglöð ungmenni að ala upp lítil börn í ótrúlega grýttum jarðvegi.
Íslensk börn þurftu helst að einbeita sér að því að halda kjafti og vera ekki fyrir eða koma hlutum í verk sem aðeins fullorðnir myndu framkvæma í dag. Það er einfaldlega ekki hægt að líkja því saman að vera barn að alast upp í íslenskri menningu árið 2014 eða árið 1974. Það er varla hægt að hugsa sér ólíkari heima og því meira sem ég les um gamla heiminn því glaðari verð ég með stöðuna eins og hún er í dag.
Einlægni, hugrekki og jafnvægi
Annað sem vakti áhuga minn var uppgjör Bjargar við ofbeldisfólkið í lífi hennar. Hún sér og lýsir því vel hvernig fólk er breyskt og hvernig allir eiga sér fleiri en eina hlið, – jafnvel þó um verstu níðinga sé að ræða. Það er enginn alvondur eða algóður og börn vilja öll það sama, – foreldra sem elska þau og styðja.
Björg, sem í dag starfar hjá Stigamótum og hefur greinilega tekst vel á við drauga fortíðar sinnar, hefur gott innsæi í sálarlíf mannskepnunnar og Hljóðin í nóttinni er bæði hugrökk og einlæg þroskasaga sterkrar konu.
Þó hún sé þokkalega skrifuð er hún ekki meistaraverk sem ritsmíð en hugrekkið, einlægnin og jafnvægið sem einkennir frásögnina, sem og lýsingarnar af gömlu Reykjavík gerir bókina lestursins virði og rúmlega það.
Anna Kristín skrifaði líka um bókina þegar hún kom út og gaf henni fimm af fimm. HÉR má lesa hennar dóm en ég gef bókinni fjórar.
[usr 4]
Hér er viðtal við höfundinn sem Egill Helgason tók fyrir Kiljuna og HÉR rifja íbúar í Höfðaborg upp minningar sínar í viðtali í Mogganum frá 1995: “Höfðaborgin ól upp hörkutól. Flestir nýttu sér það innan ramma laganna og komust vel áfram en þeir fáu sem lentu hinum megin við strikið sýndu sömu hörkuna þar. Þess ber þó að geta að það sem mönnum varð á var yfirleitt framkvæmt undir áhrifum áfengis.”
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=F99-vo8gC_A#t=579[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.