Aftur á kreik er ný bók eftir þýska höfundinn Timur Vermes. Þetta er háðsádeila um Hitler í nútímanum en hann vaknar upp aftur eftir 70 ára svefn og veit ekki alveg hvað er í gangi.
Fólk heldur að hér sé um afar sannfærandi leik að ræða og ekki líður á löngu þar til karlanginn er kominn með eiginn sjónvarpsþátt og farinn að skora hátt á YouTube.
Þetta er fyndin bók þótt aðalpersónan sé kannski ekki fyndin. Ég var að vísu smátíma að komast af stað með lesturinn, var ekki alveg viss hvernig mér fannst þetta og las bara nokkrar síður í einu.
Svo allt í einu kikkaði hún inn og ég las í einum rykk það sem eftir var. Hitler er gamall og þreyttur, frekar pirraður en ákveðinn í að koma sínu fram. Minnir svolítið á raunveruleikastjörnur eins og Sylvíu Nótt sællar minningar nema hann er ekki að leika.
Urrar á fólk ef það gerir ekki það sem hann vill og krefst þess að vera heilsað með réttum hætti. Fólkinu í kringum hann finnst þetta yndislega sérvitringslegt og lætur eftir honum það sem hægt er.
Þetta er ekki farsi þannig að maður er ekkert í hláturskasti allan tímann en það er vel hægt að glotta út í annað og það gerðist reglulega. Sagan rennur ágætlega þó hún endurtaki sig á köflum en mér fannst það bara ekkert koma að sök. En hún mátti samt ekkert vera lengri, endaði bara nákvæmlega þegar maður er komin með nóg.
Ég ætla að lifa hættulega og gefa henni fjórar stjörnur sem er mikið þessa dagana.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.