Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans er eftir japanska höfundinn Haruki Murakami.
Höfundurinn er gífurlega vinsæll í heimalandi sínu og þessi tiltekna bók seldist t.d. í milljón eintökum á fyrsta mánuði eftir að hún kom út.
Bókin fjallar um Tsukuru Tazaki sem átti einstaklega góða vini þegar hann var í menntaskóla, tvær stúlkur og tvo drengi.
Þau voru alltaf fimm saman og sáu framtíðina fyrir sér sem ein heild. Tsukuru fer í háskóla í Tókýó og þegar hann kemur heim í einu leyfinu tilkynna vinir hans honum að þau vilja aldrei sjá hann eða heyra framar og hann eigi aldrei að hafa samband við þau aftur.
Hann spyr ekki um ástæðuna og fer niðurbrotinn aftur til Tókýó þar sem hann lifir í nokkra mánuði á mörkum þess að fremja sjálfsmorð af örvæntingu og einsemd. Sextán árum seinna kynnist hann Söru sem krefst þess að hann finni hina gömlu vini sína og fái að vita hvers vegna þau hafi afneitað honum á sínum tíma. Hún telur að þetta atvik hafi orðið til þess að hann treysti aldrei neinum til fulls og sé alltaf viðbúinn því að vera hafnað að nýju.
Þetta er ótrúlega athyglisverð bók. Ég hef lesið nokkrar bækur eftir japanska höfunda og mér finnst ég alltaf þurfa smá tíma að aðlagast stílnum og þessi er engin undantekning.
Hún er þó undarlega grípandi, það er ekki hægt annað en undrast af hverju hann lætur þetta yfir sig ganga án þess nokkurn tíma að spyrja hvers vegna.
Hann krefst einskis af fólki og hafnar allri nánd. Hann á enga vini og hans helsta skemmtun er að sitja á lestarstöðvum og fylgjast með lífinu og lestunum. En hann fer samt aldrei neitt, það hefur bara aldrei hvarflað að honum að ferðast.
Eftir því sem hann fer lengra til baka og skoðar þetta atvik með vinunum þá breytist hann og tilveran líka. Hann vill fá meira út úr lífinu, ekki bara fljóta sofandi áfram. Samt virðist hann ekki hafa verið einmana en hann er alltaf einn, einfari en samt ekki beint hans eðli.
Þetta er bók til að njóta, frekar en þjóta í gegnum. Það er ekki neitt brjálað að gerast en það er samt alltaf eitthvað og allt fremur óskiljanlegt. Stundum er jafnvel ekki á hreinu hvort það sem gerist er raunverulegt eða gerist í draumaheimi Tsukuru. Nafn hans vísar til þess að það er enginn litur í nafni hans meðan eftirnöfn vikna hans innihéldu öll liti.
En tvíræðni bókarinnar er sú að ævi hans er mjög litlaus fram að því er hann fer að skoða hvað gerðist þegar vinirnir útskúfuðu honum. Fjórar stjörnur.
[usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.