Hinir réttlátu er önnur bókin sem Sólveig Pétursdóttir skrifar
Sú fyrri var Leikarinn og kom hún út í fyrra við góðar undirtektir sakamála og spennufíkla. Hinir réttlátu er ekki síðri bók en sú fyrri en hún fjallar um sömu lögregludeildina og hin miklu og erfiðu mál sem þau þurfa að leysa.
Í bókinni finnst þekktur athafnarmaður myrtur á golfvelli og á sama tíma springur sprengja í Hvalveiðiskipi sem liggur við höfnina í Reykjavík. Ekkki nóg með það, þá eru nokkur ungmenni búin að festa sig með keðjum við nokkur veitingahús í miðbænum sem selja hvalkjöt til að mótmæla því. Málin virðast tengjast og á lögregludeildin mikið verk fyrir höndum við að leysa málið.
Mjög flottir karakterar koma við í bókinni, bæði í lögregluliðinu sem og aðstandendur þess myrta. Sérstaklega hef ég gaman af persónunum í lögregluliðinu, þau eru svo mannleg og eðlileg með öll sín venjulegu vandamál sem spilast inn í atburðarrásina.
Ég varð einstaklega glöð þegar ég komst að því að sama lögreglulið er í bókinni og þeirri fyrri. Uppáhaldsrithöfundur minn í sakamálum er Adler-Olsen en hann er einmitt þekktur fyrir að skrifa um Deild Q í lögreglunni í Danmörk. Skemmtilegar og litríkar persónur sem glíma við erfið mál dag hvern.
Því fagna ég henni Sólveigu og hlakka mjög til að lesa meira um rannsóknarlögreglumennina Guðgeir, Særósu, Andrés og Guðrúnu. Það er skemmtilegt að kynnast svona hópi betur og betur með hverri bók.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.