Gagnrýnendur voru almennt og yfirhöfuð ekki par hrifnir af nýjustu bók Guðbergs Bergssonar, Hin eilífa þrá, og rifu hana í sig eins og illskeyttir úlfar.
En gallharðir aðdáendur Guðbergs, eins og undirrituð, voru kampakátir með bókina.
Eins og segir á bókakápunni er Hin eilífa þrá bæði lygileg prakkarasaga og um leið harmræn dæmisaga um Íslendinga nútímans. Á því nöturlega leiksviði hefur Guðbergur ávallt brillerað og með eitruðum og hrokafullum húmor dregur hann upp miskunnarlausar myndir af samlöndum sínum.
TAUMLAUS EFNISHYGGJA ÍSLENDINGA
Sögusvið bókarinnar er regnfatagerðin Iceland Rain sem er staðsett í iðnaðarhverfi borgarinnar. Starfsmenn hennar eiga allir sameiginlegan þann draum að verða ríkir og geta lifað í vellystingum og það sem allra fyrst og án lítillar fyrirhafnar. Og Guðbergur er ekki Músin sem læðist (titill fyrstu skáldsögu hans, 1961), hann er hér á fljúgandi siglingu í lýsingum sínum á græðgi og fallvaltleika mannsins. Og þá sérstaklega Íslendingsins – sem hann sýnir fram á að er að drukkna í klámfenginni sölumennsku og ágirnd.
TÓMATARÆKT Á MILLI RASSKINNA
Hér grípum við niður í kafla sem gerist á sjúkrastofu á elliheimili:
,,Hin eina sanna Mamma með skáletri liggur í rúminu en auðsætt er að hún er ekki langlegusjúklingur. Hún er annað en það á svipinn, fremur spræk að sjá og glampa bregður fyrir í augunum þótt hún sé með gláku. Fyrir ofan rúmið er venjulegi gálginn með handfangi til þess að gamalt eða sjúkt fólk geti gripið í það ef það langar að rísa upp og lofta undir rassinn á plastdúknum löðrandi í svita og næstum soðinn í raka, svipuðum þeim sem er í gróðurhúsum. Gömlu konunni finnst stundum eins og hægt væri að rækta tómata á milli rasskinnanna á henni og hún er ekkert að liggja á þeirri skoðun.“
Heill þér, Guðbergur, áttræðum.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.