HHhH eftir Laurent Binet er um margt merkileg bók. Hún hefur farið sigurför um heiminn og er, þegar þetta er skrifað, að koma út í annarri prentun á Íslandi. Stórkostlegur árangur!
Samt er ég búin að vera alveg óralengi að lesa hana og þegar ég segi óralengi þá er það mjög langur tími. Er einu sinni búin að leggja hana frá mér í nærri tvær vikur og dreif mig loks af stað aftur og kláraði hana. Þetta er stórkostleg bók, ég er alveg sammála því en skemmtanagildið fyrir mig var nákvæmlega ekkert.
Jú, mér fannst mjög skemmtilegt hvernig höfundur setur bókina upp og hún er stútfull af heimildum um þennan tíma og þennan sérstaka atburð, þegar tveir flugumenn voru sendir til að drepa Heydrich. Ég persónulega hef hinsvegar ekkert gaman að sögum úr seinni heimstyrjöldinni hvort sem þær eru sannar eða ósannar. Það var því með harmkvælum sem ég kláraði þessa bók.
Lýsingarnar eru sláandi og alveg frábært að höfundur dettur aldrei í þá gryfju að skálda upp það sem upp á vantar. Hann t.d. býr ekki til fallegt útlit á fólkið, nei hann leitar uppi myndir og reynir að lýsa þeim eins og þeir voru.
Hann eyðir heil miklum tíma í að ræða hvort bíll Heydrich í Prag hafi verið grænn eða svartur af því í einhverri annarri bók var sagt að hann væri grænn. Þetta er því sögulega nákvæm bók.
En fyrir þá lesendur sem eru eins og ég og vilja spennubók þar sem spenna er byggð upp frá fyrstu blaðsíðu og eykst jafnt og þétt þar til allt springur þá er þetta ekki alveg bókin. Hinsvegar þeir lesendur sem elska að lesa sögulega nákvæmar bækur með engu bölvuðu bulli inni á milli þá er þetta gersemi og verður lesin aftur og aftur.
Þessi saga er nefnilega líka um það hvernig skrifa eigi bók um þetta mál. Höfundur talar við lesendur og segir frá efasemdum og pælingum. Mér fannst það mjög skemmtileg nálgun en það var þó farið að pirra mig aðeins í lokin. Ég er sem sagt aðeins á skjön við þá sem lesið hafa bókina og segja hana með bestu bókum allra tíma. Fín bók en ekki best í heimi fyrir mig.
Ég ætla að gefa henni 4 stjörnur því þó mér hafi ekki þótt hún skemmtileg þá er hún stórkostlega vel skrifuð. Get bara ekki fengið mig til að gefa henni 5 því til þess að fá 5 hjá mér verður bókin að vera frábær í allastaði, ekki bara suma.
[usr 4]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.