Þann 13. september síðastliðinn kom þriðja og seinasta bók Suzanne Collins um Hungurleikana út í íslenskri þýðingu.
Hungurleikarnir eru þríleikur, en fyrsta bókin kom út árið 2008 og fór inn á lista NY Times yfir best seldu bækurnar í Bandaríkjunum aðeins tveimur mánuðum eftir útgáfudag og hélst á þeim lista í vel yfir 100 vikur samfleytt.
Á eftir fyrstu bókinni, sem bara einfaldlega nafnið Hungurleikarnir (The Hunger Games), kom út önnur bókin í seríunni Eldar Kvikna (Catching Fire) og að lokum kom Hermiskaði (Mockingjay) út.
Eins og oft vill verð með framhaldsbækur þá er fyrsta bókin í þríleiknum, þegar maður er að kynnast nýja umhverfinu og persónunum mest spennandi. Eldar kvikna gefa fyrstu bókinni hins vegar lítið eftir en í Hermiskaða fer söguþráðurinn aðeins að dala.
Bókin er samt sem áður góð, Suzanne skrifar góðan og skemmtilegan texta sem auðvelt er að fylgja eftir, maður nær að fylgjast vel með þó að margir karakterar komi við sögu og umhverfis- og persónulýsingar hennar gefa ímyndunaraflinu lausann tauminn.
Það eina sem hægt er að finna að bókinni, þegar miðað er við þær tvær fyrri, er að í Hermiskaða er eins og Suzanne sé ekki alveg tilbúin að sleppa takinu af persónunum sínum, hún fléttar stóra atburði til þess eins að gefa þeim snöggan endi og bætir inn í söguna smáatriðum sem gaman væri að gert væri meira úr.
Þegar ég las bókina fannst mér allan tímann eins og bókinni hefði annað hvort átt að skipta í tvennt, svo hægt væri að koma öllu því að sem Suzanne var að reyna, eða að taka stubbana út sem fengust hvort eð er aldrei nein svör við. Endirinn á þessu stóra og frábærlega smíðaða ævintýri var kannski heldur snubbóttur fyrir minn smekk, veit ekki alveg hvað mér á að finnast um hann ennþá, en ég veit að hann á eftir að koma öllum á óvart!
Hungurleikarnir eru frábær þríleikur sem ég mæli með fyrir alla sem hafa gaman að ævintýrabókmenntum. Bækurnar halda þér svo sannarlega við efnið og maður getur ekki lagt þær frá sér fyrr en maður hefur klárað, svo ekki byrja á þeim þegar þú hefur mikið að gera!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.